Golf

Óvænt í forystu eftir tvo hringi

Valur Páll Eiríksson skrifar
Bretinn Richard Bland leiðir eftir tvo hringi, sá elsti í sögu mótsins sem gerir það.
Bretinn Richard Bland leiðir eftir tvo hringi, sá elsti í sögu mótsins sem gerir það. Getty Images/Dean Mouhtaropoulos

Hinn 48 ára gamli Breti, Richard Bland, er með forystu á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi, US Open, þegar tveir hringir eru búnir af mótinu. Russell Henley deilir með honum toppsætinu.

Aðeins tæpur mánuður er síðan hinn fimmtugi Phil Mickelson varð sá elsti til að fagna sigri á PGA-meistaramótinu og halda eldri kylfingar áfram að koma á óvart eftir strembinn vetur sem einkennst hefur af COVID 19 faraldrinum. Hinn 48 ára gamli Stewart Cink vann tvo titla á PGA-mótaröðinni á síðustu níu mánuðum og jafnaldri hans Lee Westwood varð annar á tveimur mótum röð, Arnold Palmer-boðsmótinu og Players meistaramótinu.

Bland er sá elsti í sögunni til að leiða US Open eftir tvo hringi en hann er aðeins að keppa á sínu fjórða risamóti á ferlinum. Aðeins rúmur mánuður er síðan hann vann sitt fyrsta mót á Evróputúrnum, sem var hans 478. mót á túrnum.

Bretinn Bland fékk sjö fugla á hringnum í gær og þrjá skolla og lék því á fjórum undir parinu. Hann er á fimm höggum undir pari í heildina, líkt og Bandaríkjamaðurinn Russell Henley sem fór hring gærdagsins á höggi undir pari.

Fast á hæla þeirra fylgja Suður-Afríkumaðurinn Louis Oosthuizen og hinn 22 ára gamli Matthew Wolff á fjórum undir parinu og næst á eftir þeim eru Bubba Watson og Jon Rahm á þremur undir pari.

Þriðji hringur mótsins hefst klukkan 17:00 í dag og verður sýnt beint frá honum á Stöð 2 Golf.

Öll stærstu golfmótin eru á Stöð 2 Golf en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Stöð 2 Golf kostar 3.990 krónur á mánuði en er einnig hluti af Sportpakkanum. Helgarpassa að Stöð 2 Golf má kaupa á kerfum Vodafone.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.