Körfubolti

Mögnuð endurkoma í sögulegum sigri Clippers - Oddaleikur framundan í Philadelphiu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Terance Mann og Reggie Jackson fóru báðir mikinn í sögulegum sigri Clippers.
Terance Mann og Reggie Jackson fóru báðir mikinn í sögulegum sigri Clippers. Getty Images/Kevork Djansezian

Tveir leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Los Angeles Clippers tryggðu sæti sitt í úrslitum Vesturdeildarinnar og Philadelphia 76ers héldu vonum sínum á lífi með naumum sigri á Atlanta Hawks austanmegin.

Eftir sitthvorn þriggja stiga sigur Hawks í síðustu tveimur leikjum var ekki síður búist við spennandi viðureign milli Philadelphiu 76ers og Atlanta Hawks í Atlanta í gærkvöld. Sigur myndi duga heimamönnum áfram þar sem þeir leiddu einvígið 3-2.

Þeir byrjuði betur í leik sem varð vissulega jafn. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 29-22 fyrir þá rauðklæddu en í hálfleik var hún 51-47 fyrir Atlanta. Gestirnir sýndu styrk sinn eftir hálfleikinn þar sem þeir fóru á 14-0 kafla til að komast tíu stigum yfir, 61-51. Munurinn á liðunum varð aldrei mikill en 76ers héldu forystunni til loka og knúðu þannig fram oddaleik í seríunni.

Seth Curry var öflugur í liði Philadelphiu, með 24 stig þar sem sex af níu þriggja stiga skotum hans fóru niður. Tobias Harris var með sama stigafjölda og Joel Embiid með 22 stig auk 13 frákasta. Tyrese Maxey kom þá sterkur af bekknum með 16 stig. Trae Young var allt í öllu hjá Hawks með 34 stig og tólf stoðsendingar.

Í Vesturdeildinni voru Los Angeles Clippers með 3-2 forystu í einvígi sínu gegn Utah Jazz fyrir leik þeirra í borg englanna í gærkvöld. Gestirnir fóru þar mikinn í öðrum leikhluta og leiddu 72-50 í hálfleik.

Clippers svöruðu fyrir sig í þriðja leikhlutanum með 41 stigi gegn 22 stigum Utah og bættu 40 stigum til viðbótar gegn 25 stigum gestanna í fjórða leikhlutanum. 81 stig Clippers liðsins í síðari leikhlutunum tveimur lögðu því grunninn að mögnuðum 131-119 sigri liðsins.

Mest hafði Utah komist 25 stigum yfir í leiknum og er sá viðsnúningur sá stærsti í leik sem útkljáir seríu í úrslitakeppninni í 25 ár. Um er að ræða aðra seríuna í röð þar sem Clippers tapa fyrstu tveimur leikjunum, en vinna næstu fjóra til að tryggja sæti sitt í næstu umferð. Clippers eru nú komnir í úrslit Vesturdeildarinnar í fyrsta sinn í sögu félagsins en þar bíður þeirra lið Phoenix Suns sem sópaði Denver Nuggets í undanúrslitunum.

Terance Mann skoraði sinn hæsta stigafjölda í leik á ferlinum í leiknum, 39 stig fyrir Clippers, Paul George var með 28 stig, níu fráköst og sjö stoðsendingar og þá var Reggie Jackson með 27 stig og tíu stoðsendingar. Í liði Jazz var Donovan Mitchell atkvæðamestur með 39 stig en Royce O'Neale með 21 stig og tíu fráköst. Jordan Clarkson skoraði þá 21 stig af bekknum.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.