Skoðun

Sósíal­istar vilja raun­veru­legt frelsi

Andri Sigurðsson skrifar

Sósíal­ismi snýst um að auk frelsi og að frelsa verka og launa­fólk undan of­ríki kapítal­ismans þar sem at­vinnu­missir getur endað í skulda­feni og fá­tækt. Sósíal­istar vilja raun­veru­legt frelsi, efna­hags­legt rétt­læti og lýð­ræði svo sem flestir geta látið drauma sína rætast. Sósíal­istar vilja sam­fé­lag þar sem launa­fólk þarf ekki að óttast af­leiðingar at­vinnu­missis, að missa hús­næðið sitt, eða vera plagað af fjár­hags­á­hyggjum ef það veikist.

Frelsi er að hafa að­gang að gjald­frjálsri heil­brigðis­þjónustu og þurfa ekki að steypa sér í skuldir ofan á veikindin. Frelsi er að búa við hús­næðis­öryggi þar sem meiri­hluti tekna þinna rennur ekki til leigu­sala. Hús­næði þar sem fólk þarf ekki að flytja annað hvert ár.

Frelsi er að vita að þú og börnin þín hafið að­gang að sömu menntun og aðrir þó þið séuð ekki efnuð. Frelsi er að fá að búa í þínum heima­bæ þó svo að kvótinn hafi farið fyrir löngu. Frelsi er að eiga rétt á at­vinnu­leysis­bótum og sumar­fríi. Frelsi er að þurfa ekki að fljúga til Reykja­víkur til að fara til læknis. Frelsi er að vera smá­báta­sjó­maður og veiða fiskinn í sjónum, því þetta er fiskurinn okkar. Frelsi er að fá að fæða börnin þín í þinni heima­byggð en ekki uppi á heiði í sjúkra­bíl. Frelsi er að óttast ekki að missa vinnuna því þú veist að sam­fé­lagið mun grípa þig. Frelsi er að hafa eitt­hvað um það að segja hvernig bærinn þinn byggist upp og hvort fjörðurinn verði notaður undir lax­eldi. Frelsi er að koma að á­kvörðunum sem varða líf þitt, hvort sem það er í sam­fé­laginu eða vinnu­staðnum. Frelsi er að niður­stöður þjóðar­at­kvæða­greiðslna séu virtar. Og frelsi er að geta tjáð skoðanir sínar án þess að óttast að missa vinnuna. Frelsi er ekki að­eins frelsi til þess að græða og verða ríkur. Tak­marka­laust frelsi til að auðgast bitnar á sam­fé­laginu því slíkt leiðir til ó­jafnaðar og fá­tæktar þegar hin ríku sölsa sí­fellt undir sig stærri hluta sam­fé­lagsins.

Hug­myndin um að kapítal­ismi auki frelsi er snjöll. Þannig er raun­veru­leikanum snúið á haus því kerfi sem byggir á stétta­skiptingu og ótta, þar sem auður og eignir eru að mestu undir stjórn ör­fárra, og þar sem sí­fellt stærri hluti sam­fé­lagsins er einka­væddur og markaðs­væddur, getur aldrei tryggt frelsi nema út­valdra. Á markaði fær sá að kaupa sem býður mest. Í kapítal­ismanum er auður hinna ríku byggður á vinnu, svita og tárum verka­fólks. Verka­fólks sem oft nær varla endum saman þar sem hús­næðis­kostnaður vex stjórn­laust.

Hvers­konar rétt­læti er það og hvers­konar frelsi er það?

Stað­reyndin er sú að við áttum eitt sinn gjald­frjálst heil­brigðis­kerfi og mennta­kerfi. Eitt sinn byggðum við skóla, hafnir, sjúkra­hús og inn­viði um allt land með arðinum af sjávar­auð­lindinni. Við áttum kerfi þar sem smá­báta­sjó­menn gátu veitt fisk og byggt af­komu sína á slíkum veiðum. Ís­lendingar börðust saman fyrir al­mennum kosninga­rétti, al­manna­tryggingum, og réttinum til sumar­frís og at­vinnu­leysis­bóta. Við börðumst saman í þorska­stríðunum. Sagan er full af dæmum um stór­kost­lega sigra al­mennings í átt til aukins frelsis. Kjósum með frelsi og gegn of­ríki og van­getu kapítal­ismans í haust. Sósíal­istar trúa að hægt sé að auka frelsi okkar allra, ekki að­eins hinna fáu ríku.

Höfundur er hönnuður og félagi í Sósíalistaflokknum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×