Skoðun

Útvistun ábyrgðar

Sanna Magdalena Mörtudóttir skrifar

Sömu kjör fyrir sömu störf eru einkunnarorð í jafnlaunastefnu borgarinnar. Það nær greinilega ekki til starfsfólks Strætó bs. þar sem réttindi og kjör vagnstjóra eru ólík eftir því hvaða fyrirtæki ræður þau til starfa. Vagnstjórar verktaka eru á lægri grunnlaunum en bílstjórar í beinni ráðningu hjá Strætó bs. Byggðasamlagið er í eigu 6 sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og hlutverk þess er að sjá um almenningssamgöngur. Hvernig gengur það upp að einn vagnstjóri geti verið á verri kjörum en annar, þó að hann sinni sama starfi? Þetta eru afleiðingar útvistunar. Sveitarfélögin telja það góðan kost að spara með því að láta einkaaðila sjá um grunnþjónustuna en þeim sparnaði er náð með því að keyra launakjör og réttindi starfsfólks niður. Sveitarfélögin ná þeim sparnaði með því að koma ábyrgðinni frá sér.

Tæp 60% af akstri Strætó bs. er í höndum verktaka; Kynnisferða og Hagvagna. Fyrr á þessu kjörtímabili spurði ég út í ferlið að baki útboðs og hvort eitthvað þak væri á það hversu mikið af akstri Strætó bs. verktakar mega sjá um? Svo er ekki og mér finnst sláandi að það sé ekki stefna hjá opinberu fyrirtæki varðandi hversu mikið af grunnþjónustu einkaaðilar megi sjá um. Í svarbréfinu við fyrirspurn minni, kom fram að í undirbúningi útboðs væri það stjórn Strætó sem tæki ákvörðun um viðmiðunarhlutfall verktöku. Akstur Strætó tæki alltaf mið af vagnastöðu Strætó, þ.e.a.s. hversu mörgum vögnum Strætó ræður yfir og hvað hægt væri að nota þá mikið.

Vagnafloti Strætó er orðinn gamall og þörf er á talsverðri endurnýjun. Uppsöfnuð þörf í grunnkerfum okkar, líkt og samgöngum á ekki að opna á frekari útvistun. Sósíalistar vilja efla grunnstoðirnar okkar í stað þess að hluta þær niður og færa til einkaaðila. Þannig byggjum við upp gott kerfi og tryggjum að starfsfólk sé hluti af sömu heild. Einnig viljum við tryggja að starfsfólk fái aðkomu að stjórnum fyrirtækja. Áður fyrr höfðu starfsmenn SVR (Strætisvagna Reykjavíkur) rétt á því að tilnefna áheyrnafulltrúa til setu á stjórnarfundum SVR og gátu þar með komið sínum sjónarmiðum á framfæri beint inn á stjórnarfundi. Slíkt á ekki við innan um stjórn Strætó bs. Mikilvægt er að tryggja aðkomu þeirra sem þekkja vel til þeirra þátta sem má efla og bæta. Þannig byggjum við upp góðar almenningssamgöngur.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokki Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×