Skoðun

Lífs­hættu­legt frum­varp dóms­mála­ráð­herra

Katrín Sigríður J Steingrímsdóttir skrifar

Haustið 2020 voru fjögur egypsk börn, það elsta 12 ára gamalt, í felum frá íslenska ríkinu sem ætlaði að henda þeim úr landi en fjölskyldan kom hingað í leit að betra lífi. Við njótum þeirra forréttinda að búa í landi þar sem við þurfum ekki að flýja með börnin okkar í skjóli nætur vegna þess að við teljum þau vera í lífshættu muni þau búa hér enn.

Að flýja land er ekkert gamanmál og það gerir enginn nema í algjörri neyð. Abdalla, Rewida, Hamza, Mustafa og foreldrar þeirra, Doaa og Ibrahim, þurftu að fela sig frá íslenskumstjórnvöldum og treysta á þrýsting netverja svo þau fengju dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Grundvöllurinn var greinilega til staðar í lagabálknum sem var ekki hægt að beita fyrr en Íslendingar sjálfir kölluðu eftir því. Mannúðin nær greinilega svo skammt.

Hvar er mannúðin?

Á sínum tíma voru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Útlendingastofnun beitt töluverðum þrýstingi og þess krafist að egypska fjölskyldan fengi dvalarleyfi hér. Svar ráðherrans var einfalt: „Við gerum ekki reglugerðarbreytingar til að bjarga einstaka fjölskyldum sem fara í fjölmiðla.

Þar höfum við það, við breytum ekki kerfinu til þess að hjálpa fólki í neyð heldur þarf að skoða málaflokkinn heildstætt. Gott og vel, deila má um hvort þessi sjónarmið stafi af mannúð eða íhaldssemi.

Skoðum þá næstu verk ráðherrans í málaflokknum, frumvarp hennar um málefni útlendinga sem liggur nú fyrir Alþingi. Helstu rökin með frumvarpinu eru að málsmeðferðartími fólks sem leitar að vernd verði skjótari og skilvirkari. Helsta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir snýr þó ekki að málsmeðferðartíma, heldur þeim svörum sem fólkið fær.

Er markmiðið að neikvæð svör berist á styttri tíma svo fólk nái ekki að festa hér rætur, svo að það komi ekki fleiri einstakar fjölskyldur sem fara í fjölmiðla? Er mannúðlegt að senda burt fólk, sé það gert á fljótari hátt en áður? Höfuðbreytingin með þessu frumvarpi snýr helst að því að fella niður ákvæði sem heimilar Íslandi að meta sérstaklega aðstæður flóttafólks sem kemur til Íslands í gegnum önnur Evrópuríki.

Alþekkt er að flóttafólk býr við ömurlegar aðstæður t.d. í Grikklandi, Búlgaríu og Ungverjalandi. Niðurfelling á slíkri heimild er lífshættuleg fólki sem leitar til okkar . Aðgerðasinnar mótmæltu þessari breytingu af mikilli hörku síðast þegar frumvarpið leit dagsins ljós og nú birtist breytingin í enn eitt skiptið, þvert á athugasemdir Rauða krossins.

Viljum við ekki státa okkur af því að vera réttlátt fjölmenningarsamfélag sem býður aðra velkomna og tökum vel á móti þeim en sendum þau ekki til baka í ömurlegar aðstæður hratt og örugglega?

Neyðin aldrei verið meiri

Ég skora á Alþingi að hleypa þessu frumvarpi ekki í gegn og standa réttu megin í málaflokknum. Verði þetta frumvarp samþykkt mun það skrifast á þau sem stóðu ekki í vegi fyrir því og framtíðarkynslóðir munu læra um ykkur í sögutímum sem þau er stóðu í vegi fyrir mannréttindum.

Í fyrra veittum við fleirum alþjóðlega vernd en við höfum nokkurn tímann gert. Það er staðreynd. Það er einnig staðreynd að síðasta ár einkenndist að miklu leyti af heimsfaraldri sem setti strik í reikninginn sem varð til þess að Ísland gat ekki vísað fólki úr landi.

Að auki má benda á að árið 2020 tókum við ekki á móti stökum kvótaflóttamanni vegna faraldursins þó að til stæði að taka við hátt í 100 manns.

Neyðin hefur aldrei verið meiri og þegar rök um heimsfaraldur eru borin fyrir sig í þeim málum ræður hentugleiki því að þau rök séu ekki einnig bendluð við met í samþykktum umsóknum um alþjóðlega vernd. Hvað tók við þegar heimurinn náði sér á strik í vor?

Við settum met í synjunum um alþjóðlega vernd og vísunum úr landi. Í janúar og febrúar vorum við enn að veita fleirum vernd en við vorum að synja. Í apríl og maí voru 86-90% umsækjenda synjað um alþjóðlega vernd. Þegar heimurinn varð bólusettari, ferðamenn gátu ferðast hingað til lands og landinn gat farið grímulaus í búðir, þá gat ríkisstjórnin byrjað að synja fólki aftur. Þetta eru ekki bara tölur, þetta er fólk. Við eigum ekki að leika okkur með líf fólks heldur eigum við að líta á okkur sem einn hóp, sem aðstoðar hvert annað í neyð. Það sýnir mannúð.

Kerfi fyrir fólk

Það liggur alveg fyrir að kerfin okkar eru gölluð, en þeim þarf að breyta á réttan hátt. Við getum ekki sífellt breytt kerfum til að auka skilvirkni ef mannúðin er engin og breytingarnar ekki gerðar með fólk í huga. Raunar er tæplega hægt að tala um frumvarpið sem kerfisbreytingu þegar verið er að styrkja enn frekar galla núverandi kerfis.

Við þurfum að breyta verndarkerfinu svo það séu ekki fleiri einstaka fjölskyldur sem fara í fjölmiðla enda verði kerfið til þess fallið að þau sjái ekki ástæðu til þess, við bjóðum þau velkomin hingað. Auðvitað þarf að stytta málsmeðferðartíma en það á ekki að gera einungis svo hægt sé að synja sem flestum.

Mannréttindi eru órjúfanlegur hluti íslensks og alþjóðlegs samfélags. Við þurfum að leggja okkar af mörkum og taka virkan þátt. Við þurfum að auðvelda þeim sem leita hingað að verða virk í samfélaginu og hafa til staðar úrræði sem snúa að náms- og atvinnutækifærum fyrir þennan hóp. Pólitíkin getur verið ljót og þegar talað er um fólk sem tölur og málsnúmer missum við sjónar af því sem raunverulega skiptir máli. Það er fyrst og fremst fólkið sem skiptir máli.

Höfundur er sálfræðinemi og situr í 3. sæti á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×