Viðskipti innlent

Sístækkandi hlutur streymis bæði jákvæður og neikvæður

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Eiður, hér til hægri, segir sorglegt að aukningu í sölu á tónlist hér á landi megi nær eingöngu rekja til erlendrar tónlistar. Ekki kemur fram í skýrslunni hversu stóra sneið Dave Mustaine, söngvari og gítarleikari Megadeth, á af þeirri köku.
Eiður, hér til hægri, segir sorglegt að aukningu í sölu á tónlist hér á landi megi nær eingöngu rekja til erlendrar tónlistar. Ekki kemur fram í skýrslunni hversu stóra sneið Dave Mustaine, söngvari og gítarleikari Megadeth, á af þeirri köku. Myndir/Getty/FHF

Heildarverðmæti tónlistarsölu á Íslandi í fyrra var það mesta frá upphafi skráningar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Félags hljómplötuframleiðenda.

Alls nam heildarsala rúmum milljarði króna hér á landi í fyrra sem var um tuttugu prósent aukning frá árinu 2019. Þar er hlutur streymis rúm níutíu prósent.

Eiður Arnarsson, framkvæmdastjóri Félags hljómplötuframleiðenda, segir ánægjulegt að sjá heildarsöluna aukast en sorglegt að aukningin sé nánast eingöngu í erlendri tónlist. Þar sé ráðandi staða streymis skýringin.

„Þar er einfaldlega vöruúrvalið svona 99,9 prósent erlend tónlist og 0,1 prósent íslensk. Það er augljós skýring,“ segir Eiður. Íslensk sala minnki bæði í krónum og hlutfallslega samanborið við erlenda.

„En það er nánast ómögulegt að bera saman sölu á geisladisku meða vínylplötum í gamla daga og streymi í dag. Þetta eru svo gjörólíkir hlutir.“ Borgað sé fyrir hvert streymi en einungis einu sinni fyrir plötu á föstu formi.

Þá segir Eiður að aukinn hlutur streymis sé bæði jákvæður og neikvæður.

„Góðu hliðarnar eru mjög augljóslega þær að það eru fleiri notendur en áður að greiða fyrir tónlist. Það er gríðarlega jákvætt. Yfir 100.000 áskrifendur eru nú á Íslandi að Spotify,“ segir Eiður. Íslensk tónlist eigi þó erfitt í samkeppni á streymisveitum vegna þess hversu lítill hluti hún er af framboðinu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×