Leikjavísir

Ratchet & Clank: Rift Apart - Skemmtilegt ævintýri sýnir hvað hægt er að gera með PS5

Samúel Karl Ólason skrifar
Ratchet í góðum gír.
Ratchet í góðum gír. Insomniac Games/PlayStation Studios

Félagarnir Ratchet og Clank þurfa enn eina ferðina að bjarga alheiminum og jafnvel nokkrum slíkum í þetta sinn. Ratchet & Clank: Rift Apart er þrusugóð viðbót við gamla seríu sem skín í Playstation 5 en leikurinn er eingöngu gefinn út á þá leikjatölvu.

Eins og gengur og gerist í tölvuleikjum byrjar leikurinn á þann veg að allt er í blóma hjá þeim félögum Ratchet og Clank. Þeir tilheyra báðir Varðmönnum stjörnuþokunnar og er verið að halda skrúðgöngu þeim til heiðurs en allt fer auðvitað í rugl og þeir enda í annarri vídd.

Þá týna þeir hvorum öðrum og Clank endar með henni Rivet. Við tekur heljarinnar ævintýri sem bæði börn og fullorðnir ættu að hafa gaman af. Leikurinn gæti allt eins verið tæplega sólarhringslöng kvikmynd.

Þessi leikur er fyrsti nýi leikurinn í seríunni frá dögum PS3 en árið 2016 var þó gefin út endurgerð af upprunalega leiknum frá 2002 og svo í framhaldinu af því, kvikmynd.

Sjá einnig: Ratchet og Clank snúa aftur

Rift Apart er bara gerður fyrir PS5 og það tel ég hafa verið sterka ákvörðun. Hann lítur fáránlega vel út þar sem Ray Tracing tækni fær að njóta sín til hins ítrasta með tilheyrandi lýsingu og endurspeglun.

Hægt er að velja tvær mismunandi stillingar í leiknum. Eina sem keyrir á 30 römmum á sekúndu (fps), með betri gæðum, og aðra sem keyrir á 60 römmum.

Insomniac Games/PlayStation Studios

Þá hef ég ekki orðið var við hið minnsta hikst. Ratchet og félagar ferðast oft og títt í gegnum víddar-göng einhver og jafnvel á nýjar plánetur án hleðsluskjáa. Þó mig gruni að nokkrir slíkir skjáir hafi verið faldir.

Hér að neðan má sjá ítarlega yfirferð Digital Foundry um tæknina sem keyrir Rift Apart og þær lexíur sem Insomniac Games lærðu af framleiðslu Spider-Man: Miles Morales.

Sjá einnig: Hinn nýi Spider-Man er jafnvel flottari og skemmtilegri en sá fyrri á PS5

Svipaða sögu er að segja af hljóði Rift Apart sem er einkar gott. Það má mæla sérstaklega með að spila leikinn með heyrnartólum sem styðja 3D-hljóð, þar sem leikurinn er framleiddur með slíkt í huga.

Gátur og þrautir

Í gegnum spilun leiksins þarf að leysa fjölmargar gátur og þrautir sem geta verið krefjandi og skemmtilegar.

Ratchet og félagar safna nýjum vopnum og búnaði í gegnum leikinn og það getur borgað sig að snúa aftur til borða sem maður hefur þegar heimsótt, til að nota þann búnað til að komast á svæði sem maður komst ekki áður.

Þar getur maður meðal annars fundið nýjar brynjur á persónur leiksins og gull-bolta. Þegar saga leiksins er búin er svo hægt að spila hann aftur með töluvert erfiðari óvinum.

Insomniac Games/PlayStation Studios

Samantekt-ish

Ratchet, Rivet og Klank fara í gegnum hið skemmtilegasta ævintýri í Rift Apart. Það er erfitt að skemmta sér ekki við spilun leiksins og sagan er vel skrifuð og skemmtilega fyndin. Sagan tekur reyndar á á köflum líka.

Sony hefur hingað til ekki gefið út mjög marga leiki eingöngu á PS5. Rift Apart fyllir mann tilhlökkunar þegar leikjaframleiðendur hætta að framleiða leiki einnig fyrir síðustu kynslóð leikjatölva og nýta getu tölvanna í botn. Það gæti þó verið smá tími í það enn, miðað við hve hægt virðist ganga að framleiða tölvurnar.

Ratchet og Clank: Rift Apart kemur út fimmtudaginn 10. júní.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×