Körfubolti

„Frábær ferill og algjör fagmaður“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson fagnar eftir sigurinn á Val í oddaleiknum í átta liða úrslitum Domino's deildarinnar.
Jakob Örn Sigurðarson fagnar eftir sigurinn á Val í oddaleiknum í átta liða úrslitum Domino's deildarinnar. vísir/bára

Eftir leikinn gegn Keflvíkingum í gær tilkynnti KR-ingurinn Jakob Örn Sigurðarson að hann væri hættur í körfubolta. KR tapaði leiknum, féll úr leik og því er ljóst að annað lið verður Íslandsmeistari í fyrsta sinn síðan 2014.

Jakob átti langan og farsælan feril og lék lengi sem atvinnumaður, meðal annars í Svíþjóð þar sem hann var í hópi bestu leikmanna deildarinnar.

„Hann var búinn að tala um að þetta væri hans síðasta tímabil en vildi ekki gefa það út fyrr en eftir síðasta leik. Enn einn leikmaðurinn sem verður sjónarsviptir af,“ sagði Benedikt Guðmundsson í Domino's Körfuboltakvöldi í gær. Jón Arnór Stefánsson er einnig hættur og Helgi Már Magnússon hefur líklega leikið sinn síðasta leik á ferlinum. Þeir eru úr frægum 1982-árgangi í KR sem Benedikt þjálfaði.

„Jakob var atvinnumaður til margra ára og var einn besti leikmaðurinn í Svíþjóð í mörg ár. Hann fór í háskólaboltann, spilaði á Spáni og í Þýskalandi. Frábær ferill og algjör fagmaður.“

Klippa: Domino's Körfuboltakvöld - Umræða um Jakob og KR

Benedikt segir að leitun sé að manni sem er í jafn góðu formi og Jakob.

„Menn geta verið í ágætis formi, frábæru formi og svo er Kobbaform eins og við töluðum um í KR. Hann er búinn að hugsa fáránlega vel um sig. Ég hugsa að hann fari að sofa klukkan hálf tíu á hverju kvöldi,“ sagði Benedikt.

„Hann getur kannski farið eitthvað út á lífið núna. Ég hugsa að hann hafi ekki gert það í áratugi.“

Í innslaginu sem má sjá í spilaranum hér fyrir ofan ræddu þeir Benedikt, Kjartan Atli Kjartansson og Kristinn Friðriksson einnig um framtíð KR-liðsins.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×