Körfubolti

Sólirnar sendu LeBron og meistarana í sumarfrí

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Devin Booker átti stórleik þegar Phoenix Suns sendi Los Angeles Lakers í sumarfrí.
Devin Booker átti stórleik þegar Phoenix Suns sendi Los Angeles Lakers í sumarfrí. getty/Harry How

Phoenix Suns er komið áfram í undanúrslit Vesturdeildar NBA eftir sigur á Los Angels Lakers, 100-103, í Staples Center í nótt.

Phoenix lenti 2-1 undir í einvíginu en vann svo þrjá leiki í röð og sendi meistarana í sumarfrí. Þetta er í fyrsta sinn á ferlinum sem LeBron James fellur úr leik í 1. umferð úrslitakeppninnar.

Devin Booker var maður leiksins en hann skoraði 47 stig, þar af komu 22 í 1. leikhlutanum. Hann tók einnig ellefu fráköst. Booker setti niður átta þriggja stiga skot í aðeins tíu tilraunum. Jae Crowder skoraði átján stig og Chris Paul var með átta stig og tólf stoðsendingar.

LeBron skoraði 29 stig, tók níu fráköst og gaf sjö stoðsendingar fyrir Lakers. Anthony Davis byrjaði inn á en fór af velli eftir aðeins rúmar fimm mínútur þegar nárameiðsli hans tóku sig aftur upp.

Í undanúrslitum Vesturdeildarinnar mætir Phoenix Denver Nuggets sem sigraði Portland Trail Blazers, 115-126, í nótt. Denver vann einvígi liðanna, 4-2.

Nikola Jokic skoraði 36 stig fyrir Denver sem kom til baka eftir að hafa lent fjórtán stigum undir í 3. leikhluta. Michael Porter skoraði 26 stig og setti niður sex þrista. Annan leikinn í röð átti Monte Morris svo frábæra innkomu en hann skoraði 22 stig og gaf níu stoðsendingar.

Damian Lillard skoraði 28 stig og gaf þrettán stoðsendingar fyrir Portland. CJ McCollum skoraði 21 stig.

Úrslitin í nótt

  • LA Lakers 100-113 Phoenix
  • Portland 115-126 Denver

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.