Körfubolti

Doncic heldur áfram að kvelja Clippers

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luka Doncic fagnar eftir sigurinn á Los Angeles Clippers.
Luka Doncic fagnar eftir sigurinn á Los Angeles Clippers. getty/Kevork Djansezian

Luka Doncic átti magnaðan leik þegar Dallas Mavericks tók aftur forystuna í einvíginu gegn Los Angeles Clippers í úrslitakeppni NBA-deildarinnar með 100-105 sigri í leik liðanna í nótt.

Dallas leiðir einvígið, 3-2, en allir fimm leikirnir í því hafa unnist á útivelli. Það hefur aðeins tvisvar sinnum áður gerst í sögu úrslitakeppninnar og ekki síðan 1995.

Eftir að hafa orðið fyrir hnjaski og leikið undir pari í síðasta leik sýndi Doncic hversu góður hann er í nótt. Hann skoraði 42 stig, tók átta fráköst og gaf fjórtán stoðsendingar sem er persónulegt met hjá honum. 

Doncic er aðeins annar leikmaðurinn í sögu úrslitakeppninnar sem skorar fjörutíu stig eða meira og gefur fjórtán stoðsendingar eða meira í sama leiknum. Hinn er LeBron James sem afrekaði þetta fyrir þremur árum.

Doncic kom með beinum hætti að 31 af 37 körfum Dallas í leiknum sem er met í úrslitakeppninni.

Paul George skoraði 23 stig fyrir Clippers og Kawhi Leonard og Reggie Jackson voru með sitt hvor tuttugu stigin.

Atlanta Hawks, Philadelphia 76ers og Utah Jazz tryggðu sig öll áfram í næstu umferð með sigrum í nótt.

Atlanta sigraði New York Knicks, 89-103, í Madison Square Garden og vann einvígið, 4-1. Trae Young átti enn einn stórleikinn fyrir Haukana en hann skoraði 36 stig og gaf níu stoðsendingar. Julius Randle skoraði 23 stig fyrir Knicks.

Í undanúrslitum Austurdeildarinnar mætir Atlanta Philadelphia sem vann Washington Wizards, 129-112, þrátt fyrir að leika án Joels Embiid sem er meiddur.

Seth Curry skoraði þrjátíu stig fyrir Philadelphia og Tobias Harris 28. Ben Simmons var með þrefalda tvennu; nítján stig, tíu fráköst og ellefu stoðsendingar. Bradley Beal skoraði 32 stig fyrir Washington.

Utah sigraði Memphis Grizzlies, 126-110, og vann einvígið, 4-1. Donovan Mitchell skoraði þrjátíu stig fyrir Utah og gaf tíu stoðsendingar. Hann hitti úr ellefu af sextán skotum sínum og var kominn með 26 stig í hálfleik. Jordan Clarkson skoraði 24 stig fyrir Utah og Rudy Gobert var með 23 stig og tók fimmtán fráköst. Utah mætir sigurvegaranum úr einvígi Dallas og Clippers í næstu umferð.

Ja Morant og Dillon Brooks skoruðu 27 stig hvor fyrir Memphis. Sá fyrrnefndi gaf einnig ellefu stoðsendingar.

Úrslitin í nótt

  • LA Clippers 100-105 Dallas
  • NY Knicks 89-103 Atlanta
  • Philadelphia 129-112 Washington
  • Utah 126-110 Memphis

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×