Málið á sér langa forsögu en Mjólka stefndi MS til greiðslu skaðabóta þann 30. júní 2020. Kröfu sína byggir Mjólka á meintum samkeppnislagabrotum MS í formi markaðsmisnotkunar á árunum 2008 til 2010. Ólafur M. Magnússon, stofnandi og fyrrum eigandi Mjólku, segir markaðsmisnotkun MS hafa bitnað illa á fyrirtækinu og haft alvarlegar afleiðingar. Mjólka er nú í eigu Kaupfélags Skagfirðinga en KS á 10% í MS.
MS byggði frávísunarkröfu sína á þeim rökum að krafan væri fallin niður sökum fyrningar. Almenna reglan er sú að fyrning leiði frekar til sýknu en frávísunar. Hins vegar eru þess dæmi að málum sé vísað frá vegna fyrningar þar sem lögvarðir hagsmunir eru ekki lengur til staðar.
Í úrskurði héraðsdóms segir að vafi leiki á hvenær fyrningarfrestur kröfunnar hófst að líða og því verði málið tekið til efnismeðferðar.
MS þegar dæmd sekt vegna markaðsmisnotkunar
Með dómi Hæstaréttar frá 4. mars 2021 var MS dæmt til að greiða 480 milljóna króna sekt í ríkissjóð vegna markaðsmisnotkunar. Í dómi Hæstaréttar segir að félagið hefði selt hrámjólk til tengdra aðila á mun lægra verði en ótengdum aðilum og sú mismunun hafi veitt hinum tengdu aðilum óeðlilegt forskot í samkeppni á markaði.
MS ehf. var því talið hafa mismunað viðskiptaaðilum sínum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og þannig veikt samkeppnisstöðu þeirra og með því brotið með alvarlegum hætti gegn samkeppnislögum.

Mjólka hafi rétt fram sáttarhönd
Ólafur M. Magnússon, stofnandi og fyrrum eigandi Mjólku, segir fyrirtækið hafa lýst sig reiðubúið til að ganga að sáttaborðinu til að forðast málarekstur.
„Það er skammarleg framganga af hálfu MS að slá á útrétta sáttahönd. Það er okkur því fagnaðarefni að frávísunarkröfu MS sé hafnað og málið fái efnislega meðferð fyrir dómi.“ segir Ólafur um úrskurð héraðsdóms í morgun. Enn fremur segir hann: „Það er því mikið réttlætismál að MS verði látið sæta ábyrgð á brotum sínum, sem á sér áratuga sögu um ofríki gagnvart keppinautum sínum sem flestir hafa lotið í gras vegna þess.“
Aðalmeðferð í málinu fer fram föstudaginn 10. september næstkomandi kl. 09:15 í dómsal 201.