Skoðun

Baráttan heldur áfram

Matthías Tryggvi Haraldsson skrifar

Við fögnum því að vopnahlé sé komið á í Palestínu og í Ísrael.

Vopnahlé er auðvitað fagnaðarefni, ekki síst fyrir þau sem misstu ekki ástvini sína, misstu ekki heimili sín, sem urðu ekki fyrir sprengjuárásum undanfarna daga. Við fögnum með þeim í dag.

Við sýnum þeim líka samstöðu og samhug, sem það gerðu, sem urðu fyrir árásunum, sem urðu fyrir sprengingunum, létu lífið, eða misstu börnin sín, heimili og lífsviðurværi.

Á þriðja hundrað manns eru látin. Sprengingarnar kostuðu tugi barna lífið. Þúsundir eru slösuð. Hundruð heimila eru eyðilögð. Tugir þúsunda hafa neyðst á flótta.

Orðið vopnahlé dregur kannski upp ósanna mynd. Þau sem heyra orðið vopnahlé sjá kannski fyrir sér tvö fullbúin herlið á vel skilgreindum vígvelli þar sem tveir hertogar takast í hendur eftir síðustu rimmu. Það sama á kannski við um fleiri orð eins og átök, stríð, ástand og svo mörg orð sem eru notuð um Palestínu. Höfum því eitt á hreinu: Það er bara einn her í Ísrael og Palestínu, ein þjóð sem heldur annarri með valdi, með ólöglegu hernámi og landtöku, aðskilnaðarstefnu og herkví.

Þótt hörðustu árásunum linni í bili heldur barátta Palestínumanna fyrir viðurkenningu og mannréttindum áfram.

Við krefjumst þess að þjóðernishreinsunum í Sheikh Jarrah og allri Palestínu verði hætt. Við krefjumst þess að ítrekaðar árásir á Gaza verði stöðvaðar – varanlega – og bundinn endi á herkvína. Við krefjumst þess að ólöglegri landtöku og hernámi á landi Palestínumanna ljúki. Við krefjumst þess að Ísrael viðurkenni tilvist Palestínu.

Íslensk stjórnvöld bera ábyrgð sem málsvarar okkar, þeirra ábyrgð er að senda skýr skilaboð með skýrri afstöðu og aðgerðum.

Þegar við segjum frjáls Palestína, þá meinum við ekki frjáls Palestína rétt á meðan sviðsljósið beinist að sprengjuárásum. Við meinum frjáls Palestína til frambúðar.

Einhvern veginn svona hljóðuðu inngangsorð á samstöðufundi með Palestínu sem haldinn var á Austurvelli síðastliðinn laugardag. Ég vil hvetja alla sem þetta lesa til að kynna sér málið, skrifa undir undirskriftasafnanir Félagsins Ísland-Palestína, Amnesty International og fleiri samtaka sem láta sig málefni Palestínu varða og styrkja neyðarsöfnun sem nú stendur yfir. Baráttan heldur áfram og við höldum áfram að sýna samstöðu.

Höfundur er leikskáld og söngvari.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.