Skoðun

Kaupin á eyrinni

Eyþór Laxdal Arnalds skrifar

Reykjavíkurborg er stundum skrýtin skepna. Hún rekur malbikunarstöð. Hún hefur fjárfest gríðarlega í fjarskiptafélagi. Og svo hefur hún keypt rafmagn og þjónustu af eigin fyrirtækjum fyrir milljarða án útboðs. Þrátt fyrir kaup borgarinnar á rafmagni fyrir hundruði milljóna árlega var enginn samningur til um kaupin. Enginn afsláttur. Ekkert útboð.

Munar miklu

Þetta er ólöglegt eins og nú hefur komið fram í úrskurði um útboðsmál. Borgin hefur borgað of hátt verð fyrir rafmagn bara til að hygla eigin fyrirtæki. Þetta er bæði ólögmætt og óskynsamlegt. Samkvæmt tölum frá Orkustofnun og Orkusetrinu er munur á raforkuverði allt að 25% á milli aðila. Borgin gæti því sparað mikla fjármuni með því að bjóða meira út.

Það að skipta við eigin fyrirtæki án útboðs er þvert á frjálsa samkeppni. Nýlega þurftu Samtök Iðnaðarins að kæra borgina vegna risastórs verkefnasamnings sem gerður var við ON án útboðs. Borgin tapaði því máli, enda bar að bjóða þetta út. Sama er að segja um umferðarljósastýringar. Þar braut borgin líka útboðslög. En ljósastýring í borginni er svo kapítuli út af fyrir sig. Þau eru ekki að virka sem skyldi.

Undarlegar áherslur

Það er illa farið með fé þegar borgin er rekin fyrir lánsfé og stundar síðan vafasaman fyrirtækjarekstur. Í stað þess að einbeita sér að því að tryggja leikskólapláss fer orkan og fjármagnið í annað. Í stað þess að bæta umferð er farið í ólögleg útboð. Nú hefur borgin aftur og aftur orðið afturreka þar sem hún hefur brotið lög um opinber útboð. Það er því morgunljóst að þetta er ekki klaufaskapur í einu máli. Þetta er einbeittur brotavilji. Svona gerast kaupin á eyrinni. Það er undarlegt að þeir flokkar sem eru nú í meirihluta skuli mæta þessum úrskurðum með þögn.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðislokksins í borgarstjórn.  Til fróðleiks um raforkuverð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×