Körfubolti

Braut reglur með því að fara í tekílateiti

Valur Páll Eiríksson skrifar
LeBron James er með puttana í fjölmörgum verkefnum, þar á meðal tekílanu Lobos 1707. Að auki á hann hlut í enska fótboltaliðinu Liverpool og hafnaboltaliðinu Boston Red Sox.
LeBron James er með puttana í fjölmörgum verkefnum, þar á meðal tekílanu Lobos 1707. Að auki á hann hlut í enska fótboltaliðinu Liverpool og hafnaboltaliðinu Boston Red Sox. AP/Jeff Chiu

Körfuboltastjarnan Lebron James, leikmaður Los Angeles Lakers í NBA-deildinni, braut sóttvarnarreglur deildarinnar í vikunni þegar hann fór í veislu þar sem auglýst var tekíla sem hann fjármagnar. James á líklega refsingu yfir höfði sér.

James var á meðal gesta í stjörnum prýddri kynningarveislunni fyrir tekílað Lobos 1707, en James er á meðal þeirra sem fjármagna framleiðslu þess. Leikarinn Michael B. Jordan og rapparinn Drake voru á meðal gesta og þurftu þeir, líkt og aðrir gestir, að sýna fram á bólusetningu eða framvísa neikvæði COVID-prófi.

Þrátt fyrir þessar ströngu skilyrði er um brot á sóttvarnarreglum NBA-deildarinnar að ræða.

Þetta er brot á samþykktum reglum, og, líkt og við höfum gert í sambærilegum uppákomum í deildinni, hefur það verið komið áleiðis til félagsins, hefur ESPN eftir talsmanni NBA-deildarinnar um atvikið.

James á líklega sekt yfir höfði sér fyrir brot sitt en James Harden, þáverandi leikmaður Houston Rockets, var sektaður um 50 þúsund bandaríkjadali fyrir svipað brot seint í desember í fyrra.

James verður í eldlínunni þegar Los Angeles Lakers mætir Phoenix Suns í fyrsta leik sínum í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í kvöld. Leikurinn verður í beinni á Stöð 2 Sport 3 klukkan 19:30.

NBA leikir dagsins á Stöð 2 Sport

17:00 Philadelphia 76ers - Washington Wizards (Stöð 2 Sport 3)

19:30 Phoenix Suns - Los Angeles Lakers (Stöð 2 Sport 3)

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×