Skoðun

Stór skref strax: Svona bætum við réttarstöðu þolenda

Jóhann Páll Jóhannsson og Heiða Björg Hilmisdóttir skrifa

MeToo-byltingin hefur valdið stórkostlegri hugarfarsbreytingu en það er stjórnmálafólks að fylgja byltingunni eftir með stórum ákvörðunum: áþreifanlegum breytingum á umgjörð og leikreglum samfélagsins í þágu þolenda.

Það er ekki nóg að segjast styðja þolendur; kjörnir fulltrúar verða líka að hafa pólitískan metnað til að skapa þolendavænna samfélag og bæta réttarstöðu þeirra sem brotið er á. Eftirfarandi eru sjö aðgerðir sem við í Samfylkingunni óskum eftir umboði kjósenda til að hrinda í framkvæmd á næsta kjörtímabili.

1.  Breytum lögum um meðferð sakamála þannig að þau sem kæra kynferðisbrot eða ofbeldi í nánum samböndum fái aðild að sakamálinu eða flest þau réttindi sem felast í málsaðild. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki orðið við ákallinu um slíka réttarbót. Auðvitað eiga þolendur og réttargæslumenn þeirra að geta fylgst með réttarhöldum yfir geranda, lagt fram viðbótarsönnunargögn, spurt ákærða og vitni viðbótarspurninga og loks haft heimild til áfrýjunar. Slík réttindi eru tryggð í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi og þannig eigum við að hafa það á Íslandi.

2.  Rýmkum gjafsóknarreglur svo þolendur heimilis- og kynferðisofbeldis geti einnig sótt rétt sinn í einkamáli án þess að taka á sig fjárhagsáhættu og gerum ríkissjóð ábyrgan fyrir dæmdum bótum í einkamálum gegn gerendum með sams konar hætti og kveðið er á um í lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.

3.  Ráðumst í skipulegt átak til að tryggja að lögregla hafi nægan mannafla til að rannsaka kynferðis- og heimilisofbeldismál vel og málin fái skjótari málsmeðferð í réttarkerfinu. Í tilvikum þar sem sakborningur fær refsilækkun vegna tafa hjá ákæruvaldi eða dómstólum ætti brota­þoli jafnframt að fá hærri bætur sem að hluta greiðist úr ríkissjóði.

4.  Tryggjum brotaþolum langtíma stuðning og öryggi meðan mál eru til rannsóknar og tryggjum að starfandi séu þolendamiðstöðvar um allt land með auknum fjárframlögum. Stuðningur við brotaþola er mikilvægt samfélagslegt verkefni. Tökum sérstaklega utan um fatlað fólk, fólk af erlendum uppruna, heimilislaust fólk, transfólk og jaðarsetta hópa sem eru sérstaklega berskjaldaðir fyrir ofbeldi.

5.  Ráðumst í endurskoðun á lagaumhverfi og stjórnsýslu barnaverndar- og umgengnismála til að tryggja að börn njóti raunverulega vafans þegar uppi er rökstuddur grunur um ofbeldi á heimili. Ekkert barn á að vera þvingað til umgengni við foreldri sem hefur verið dæmt fyrir eða er grunað um ofbeldi gegn því. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur skerpti á vernd barna gegn ofbeldi með breytingum á barnalögum árið 2012 en síðan hefur lítið hreyfst í þessum efnum. Tökum upp þráðinn þaðan sem frá var horfið.

6.  Tryggjum fólki aukinn rétt til launaðs leyfis í kjölfar heimilsofbeldis eins og lög í Nýja Sjálandi heimila án þess að gengið sé á önnur réttindi, almennt veikindafrí og orlof.

7.  Stofnum Ofbeldisvarnarráð Íslands með bolmagn til að vinna markvisst að forvörnum og fræðslu gegn ofbeldi í samvinnu við sveitarfélög um allt land, lögreglu og grasrótarhreyfingar. Starfsemi Ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkurborgar hefur gefist vel og við þurfum sams konar starf um allt land. Jafnframt þarf að rýmka lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldismál milli félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta.

Umbæturnar sem hér hefur verið lýst taka mið af reynslu nágrannaþjóða okkar og eru í senn raunhæfar og róttækar. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur virðist hafa afhent Sjálfstæðisflokknum neitunarvald í þessum málaflokki eins og svo mörgum öðrum, en við í Samfylkingunni vonumst eftir afgerandi pólitísku umboði í haust til að hrinda aðgerðunum í framkvæmd og stórbæta þannig stöðu þolenda á Íslandi.

Heiða Björg Hilmisdóttir er varaformaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarráðs og ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkurborgar. Jóhann Páll Jóhannsson er þingframbjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.