Skoðun

Fílahirðarnir í stofunni

Stefán Pálsson skrifar

Utanríkisráðherrar Norðurskautaráðsins funda í Reykjavík í þessari viku eins og skilmerkilega hefur verið rakið í fjölmiðlum. Yfirlýstur tilgangur ráðsins er göfugur. Því er öðru fremur ætlað að stuðla að friðsamlegri samvinnu þeirra landa sem liggja að þessum viðkvæma heimshluta einkum á sviði umhverfismála

Í umræðum um þessi mál kjósa ansi margir þó að þykjast ekki sjá fílinn í stofunni og horfa framhjá þeirri staðreynd að í þessum landahópi eru þau tvö ríki sem hafa yfir að búa obbanum af kjarnorkuvopnum veraldarinnar og færa hluta þeirra í sífellu um norðurhöf, með tilheyrarandi ógn við náttúru svæðisins og heilsu og velferð fólksins sem þar býr. Bandaríkin og Rússland eru einnig þau ríki sem stærst skref hafa stigið til vígvæðingar á heimskautasvæðinu á liðnum árum og hafa lagt drög að enn stórfelldari uppbyggingu í náinni framtíð. Sömu ríki hafa gengið harðast fram í að berjast gegn samþykkt nýlegs sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

Oft er talað eins og að ógnin af kjarnorkuvopnum sé löngu liðin, líkt og slæm minning úr kalda stríðinu. Ekkert er fjær sanni. Allan ársins hring standa yfir æsilegir eltingaleikir risaveldanna í heimshöfunum, þar sem Bandaríkin og Rússland reyna hvort um sig að halda kjarnorkuvopnakafbátum sínum leyndum hvort fyrir öðru, sem hluta af flókinni leikjafræði hershöfðingja. Ekki þarf að fjölyrða um hversu alvarleg áhrif kafbátaslyss gætu orðið.

Fílahirðarnir leika lausum hala í stofunni, með kafbáta sína, herskip og loftför. Það er í hrópandi mótsögn við öll hin göfugu, yfirlýstu markmið Norðurskautaráðsins. Höfnum vígvæðingu á norðurslóðum!

Höfundur á sæti í miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×