Um­fjöllun og viðtal: Kefla­vík - Tinda­stóll 79-71 | Múr­steina­kast þegar Kefla­vík tók for­ystu í ein­víginu

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
visir-img
VÍSIR/VILHELM

Deildarmeistarar Keflavíkur hófu leik í úrslitakeppni Domino´s deild karla á sigri gegn Tindastól. Lokatölur 79-71 Keflavík í vil. Nánari umfjöllun og viðtöl væntanleg.

Það var rafmögnuð stemmning í Sláturhúsinu við Sunnubraut þegar að Tindastólsmenn mættu í heimsókn til Keflvíkinga sem sigruðu deildina með nokkrum yfirburðum. Úrslitakeppnin loksins hafin eftir að kórónuveiran kláraði síðasta tímabil. 

Heimamenn buðu upp á ljósashow í leikmannakynningum og Drummerinn var búinn að virka trommusveitina að nýju. Virkilega skemmtilegt.

Tindastólsmenn sem kláruðu deildina í 8. sæti hafa valdið vonbrigðum í allan vetur. En undirrituðum fannst þeir standa sig ágætlega í kvöld. Þeir börðust vel en deildarmeistararnir reyndust of stór biti að lokum og unnu sigur 79-71 í leik þar sem taugarn leikmanna spiluðu ef til vill stærri rullu en hæfileikarnir.

Leikurinn hófst af talsverðum krafti líkamlega þó að hittni liðanna hafi ekki verið neitt sérstök. Pétur Rúnar Birgisson lék ágætlega á þessum upphafskafla og voru Tindastólsmenn hænuskrefinu á undan í fyrsta leikhluta sem lauk þó með því að bæði lið skoruðu 22 stig. 

Dominykas Milka var þarna strax farinn að sýna að norðanmenn ættu ekki mikið í að stöðva hann undir körfunni. Milka var hreinlega að leika sér að léttari varnarmönnum Tindastóls og skoraði nokkrunvegin að vild.

Í öðrum leikhluta var það sama uppi á teningnum. Mikil barátta en ekki endilega margt um fína drætti. Jaka Brodnik náði þó að skila niður nokkrum mikilvægum körfum og Dean Williams átti troðslutilraun sem að var af þannig styrkleika að fréttaritari bjóst við því að flísar féllu úr loftinu, slíkur var krafturinn. 

Keflvíkingar náðu svo gjörsamlega að loka á Tindastól síðustu mínútur hálfleiksins en þaðan hafði ekki komið stig í 6 mínútur þegar að Flenard setti flotskot um það bil sem flautan gall. 38-31 heimamönnum í vil í hálfleik.

Í síðara hálfleik hafði Keflavík alltaf frumkvæðið þó svo að stólarnir hafi hótað því að loka muninum. Þeir fóru í raun nokkuð illa að ráði sínu í nokkur skipti þegar þeir hefðu getað jafnað eða komist yfir. Þarna var orðið ljóst að Hörður Axel Vilhjálmsson var farinn að virkilega fara í taugarnar á aðalbakverði Tindastóls, Nick Tomsick. Enda skoraði Tomsick einungis 5 stig í leiknum, öll af vítalínunni. 

Flest eldvarnarteppi landsins hefðu orðið stolt af frammistöðu Harðar, enda slökkti hann gjörsamlega í helsta sóknarvopni gestanna. Keflavík hafði nauma forystu þegar að leikhlutanum lauk, ekki síst vegna frammistöðu CJ Burks sem átti flotta spretti.

Í fjórða og síðasta leikhlutanum skiptust liðin á að skora framan af, þá helst þeir Flenard og Milka. Þar til Hörður Axel sagði hingað og ekki lengra, setti niður tvo þrista og kom heimamönnum 12 stigum yfir. Það reyndist Stólunum ofviða og sigldu Keflvíkingar sigrinum heim 79-71. Þar með leiðir Keflavík í einvíginu 1-0.

Stigahæstur Keflvíkinga í kvöld var Dominykas Milka með 33 stig og hjá Tindastól var Flenard Whitfield með 23 stig.

Af hverju vann Keflavík?

Þegar að það kom að því að sýna tennurnar í lokin þá er staðan hreinlega þannig að Keflavík er með betra mannað lið heldur en Tindastóll. Domynikas Milka var eins og kóngur í ríki sínu í teignum og Dean Williams tók hvert frákastið af fætur öðru. Tindastólsmenn höfðu hreinlega ekki svör við öllum vopnum Keflvíkinga.

Hvað gekk vel?

Dominykas Milka var sem fyrr segir algerlega geggjaður. Skoraði 33 stig í 16 skotum, tók 8 fráköst og skoraði körfur á öllum mikilvægustu stundum leiksins þegar gestirnir voru að nálgast. Hann fiskaði aukinheldur 7 villur.

Þá ætti einhver að semja langan söngbálk um varnarleik Harðar Axels í kvöld. Maður lifandi.

Hvað gekk illa?

Hræðilegur dagur á skrifstofunni hjá Nick Tomsick sem skaut 0/14 í leiknum þar af 0/10 fyrir utan þriggja stiga línuna. Hörður gjörsamlega átti hann með húð og hári í leiknum. Þá töpuðu Tindastóll 12 boltum gegn einungis 5 hjá heimaliðinu. Það er erfitt að vinna það upp.

Hvað næst?

Næsti leikur í einvíginu verður á Sauðárkróki næstkomandi þriðjudag, þann 18. maí kl 18:15.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.