Viðskipti innlent

Björn Ingi dæmdur til að greiða áttatíu milljónir króna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Björn Ingi Hrafnsson hefur verið fastagestur á upplýsingafundum almannavarna og Embættis landlæknis vegna kórónuveirufaraldursins í hálft annað ár.
Björn Ingi Hrafnsson hefur verið fastagestur á upplýsingafundum almannavarna og Embættis landlæknis vegna kórónuveirufaraldursins í hálft annað ár. Vísir/Vilhelm

Fjölmiðlamaðurinn Björn Ingi Hrafnsson, sem í seinni tíð hefur verið kenndur við Viljann, hefur verið dæmdur til að greiða þrotabúi Pressunnar ehf. áttatíu milljónir króna.

Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Vesturlands sem hafði fallist á kröfur Pressunnar ehf. um að veðsetningum á eignum félagsins, sem gerðar voru með lánasamningi milli Pressunnar ehf. og Björns Inga auk tryggingabréfs, yrði rift.

Um var að ræða allsherjarveð í Pressunni, auk vörumerkjanna og vefsíðanna Eyjan.is, Bleikt.is, 433.is, sem og útgáfurétt Pressunnar. Þá var þess krafist að yfirtöku Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., sem tók yfir miðla Pressunnar skömmu áður en félagið fór í gjaldþrot árið 2017, á 80 milljóna skuld Björns Inga við Pressuna yrði rift. Héraðsdómur og Landsréttur féllust einnig á það.

Pressan ehf. rak útgáfustarfsemi á áðurnefndum vefsíðum og átti hlut í dagblaðinu DV. Björn Ingi var einn stofnenda Pressunnar ehf. og stjórnarformaður félagsins frá stofnun þess og þar til í desember 2017.

Björn Ingi þarf auk milljónanna áttatíu að greiða þrotabúi Pressunnar eina milljón til viðbótar í málskostnað fyrir Landsrétti. Dómurinn verður birtur á vef Landsréttar síðdegis.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×