Handbolti

„Þetta eru engin smávægis skot sem eru að koma“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorsteinn Leó Gunnarsson hefur skorað 3,8 mörk í leik í vetur og nýtt 55 prósent skota sinna.
Þorsteinn Leó Gunnarsson hefur skorað 3,8 mörk í leik í vetur og nýtt 55 prósent skota sinna. Vísir/Hulda Margrét

Mosfellingurinn Þorsteinn Leó Gunnarsson var tekinn fyrir í Seinni bylgjunni í gær þar sem fjallað var um leik Aftureldingar og FH og það er óhætt að segja að gamli þjálfarinn hans sé hrifinn af þessari átján ára gömlu stórskyttu.

„Einar Andri var mjög hrifinn af frammistöðu síns gamla lærisveins Þorsteins Leós Gunnarsson sem í raun og veru sló í gegn í fyrri leik þessara liða. Þá skoraði hann átta mörk og stökk fram á sjónarsviðið. Auðvitað, eins og með unga menn. þá er hann upp og niður eftir það en hann sýndi flotta takta í þessum leik,“ sagði Henry Birgir Gunnarsson í upphafi umfjöllunar um Þorstein Leó Gunnarsson sem skoraði sex mörk á mót FH.

„Gunni er að setja hann í margar stöður. Hann er ungur leikmaður en einstakur leikmaður. Hann gerir mikið af mistökum í þessum leik en hann skorar líka frábær mörk,“ sagði Einar Andri Einarsson, sérfræðingur í Seinni bylgjunni.

Klippa: Seinni bylgjan: Þrumuskot Þorsteins Leó

Einar Andri tók saman dæmi til að sýna af hverju Þorsteinn Leó er einstakur leikmaður.

„Ég veit ekki hvenær við sáum síðast svona leikmann koma fram það er leikmaður sem er að taka skot af svo löngu færi,“ sagði Einar Andri.

Einar sýndi dæmi um hvaðan Þorsteinn er að skjóta. „Við sjáum hérna fjarlægðina enn og aftur. Þetta eru engin smávægis skot sem eru að koma og þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig þetta verður á næsta ári eða þarnæsta ári þegar hann verður kominn með meiri reynslu, meira kjöt og meiri þekkingu,“ sagði Einar

„Mér finnst frábært að sjá þetta því þetta er það sem við viljum sjá að hann sé að taka þessi langskot en sé ekki að hnoðast,“ sagði Bjarni Fritzson, sérfræðingur í Seinni bylgjunni.

„Það verður ótrúlega gaman að fylgjast með því hvernig þessi strákur þróast,“ sagði Einar. Það má sjá alla klippuna hér fyrir ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.