Handbolti

Arnór og Ómar Ingi tilnefndir sem leikmaður mánaðarins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór Þór Gunnarsson og Ómar Ingi Magnússon eru báðir tilnefndir sem leikmaður mánaðarins í þýsku úrvalsdeildinni.
Arnór Þór Gunnarsson og Ómar Ingi Magnússon eru báðir tilnefndir sem leikmaður mánaðarins í þýsku úrvalsdeildinni. vísir/getty

Tveir íslenskir landsliðsmenn eru tilnefndir sem besti leikmaður apríl-mánaðar í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Þetta eru Arnór Þór Gunnarsson, leikmaður Bergischer, og Ómar Ingi Magnússon sem leikur með Magdeburg.

Auk þeirra eru Marcel Schiller (Göppingen), Jonathan Carlsbogard (Lemgo), Jim Gottfridsson (Flensburg), Anton Lindskog (Wetzlar) og Dejan Milosavljev (Füchse Berlin) tilnefndir.

Arnór skoraði ellefu mörk í tveimur leikjum í síðasta mánuði. Sjö þeirra komu af vítalínunni og skotnýting hans þaðan var hundrað prósent. Bergischer er í 8. sæti deildarinnar.

Ómar Ingi skoraði 29 mörk í apríl, þar af fjórtán úr vítum. Skotnýting Selfyssingsins var 69 prósent.

Ómar Ingi hefur leikið sérlega vel með Magdeburg í vetur og er þriðji markahæsti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar með 173 mörk. Hann var einnig tilnefndur sem leikmaður mars-mánaðar. Magdeburg er í 4. sæti deildarinnar.

Hægt er að kjósa leikmann apríl-mánaðar í þýsku úrvalsdeildinni með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×