Handbolti

FH-ingar fá einn efnilegasta markmann landsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Formaðurinn Ásgeir Jónsson sést hér bjóða Svavar Inga velkominn í FH.
Formaðurinn Ásgeir Jónsson sést hér bjóða Svavar Inga velkominn í FH. FH

Svavar Ingi Sigmundsson, ungur og efnilegur markmaður frá KA, hefur skrifað undir þriggja ára samning við Handknattleiksdeild FH og mun ganga til liðs við félagið í sumar.

FH-ingar sendu frá sér fréttatilkynningu í morgun og þar kemur fram að félagið hefur mikla trú á stráknum en Svavar Ingi hefur leikið með öllum yngri landsliðum HSÍ og er í dag í 21 árs landsliði Íslands. Svavar Ingi Sigmundsson er fæddur árið 2000 og heldur upp á 21 ára afmælið sitt í ágúst.

„Svavar Ingi er einn efnilegasti markmaður landsins og erum við FH-ingar virkilega ánægðir með að fá hann í Kaplakrika. Fyrstu kynni okkar af Svavari Inga eru að hér er á ferð alvöru drengur sem er með mikinn metnað og hann ætlar sér langt. Við FH-ingar munum hjálpa honum að ná sínum markmiðum,“ sagði Ásgeir Jónsson formaður handknattleiksdeildar FH eftir undirskrift dagsins en það kemur fram í fréttatilkynningu FH.

Svavar Ingi hefur ekki fengið mikið að spila með KA í vetur en hann er með 10 skot varin í 13 leikjum samkvæmt tölfræði HB Statz eða 25 prósent skota sem hann hefur reynt við.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.