Íslenski boltinn

Pepsi Max-spáin 2021: Af litlum Loga verður oft mikið bál

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir FH 3. sæti Pepsi Max-deildarinnar í sumar.

Ingvi Þór Sæmundsson, Runólfur Trausti Þórhallsson og Sindri Sverrisson skrifa
Eggert Gunnþór Jónsson gjörbreytti FH-liðinu þegar hann kom heim um mitt síðasta sumar. Vísir/Hulda Margrét

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir FH 3. sæti Pepsi Max-deildarinnar í sumar.

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir að venju fyrir um gengi liðanna í Pepsi Max-deild karla með árlegri spá sinni fyrir mótið. Keppni í deildinni hefst með leik Vals og ÍA föstudagskvöldið 30. apríl. Valsmenn eiga titil að verja en þeir urðu Íslandsmeistarar í 23. sinn í sögu félagsins í fyrra.

Íþróttadeild spáir FH 3. sæti Pepsi Max-deildarinnar í sumar og að liðið lækki um eitt sæti frá síðasta tímabili.

Miklar breytingar hafa orðið á þjálfaramálum FH undanfarna mánuði. Ólafur Kristjánsson hætti hjá FH um miðjan júlí í fyrra og hélt aftur til Danmerkur. Við starfi hans tóku Eiður Smári Guðjohnsen og Logi Ólafsson sem hætti enn einu sinni við að hætta. 

Eggert Gunnþór Jónsson kom einnig til FH á miðju tímabili og átti frábæra innkomu í liðið. FH gekk vel það sem eftir lifði tímabils og endaði í 2. sæti þótt liðið hafi aldrei ógnað Val að neinu ráði. Eftir tímabilið tók Eiður Smári einn við liðinu og Logi fór upp á skrifstofuna. Eiður Smári hætti hins vegar í desember þegar hann gerðist aðstoðarþjálfari landsliðsins og Logi var aftur gerður að þjálfara.

Logi er eins reyndur og þjálfarar verða og gerði góða hluti þegar hann stýrði FH um aldamótin. FH-ingar fengu gríðarlega mikinn liðsstyrk þegar Matthías Vilhjálmsson sneri heim úr atvinnumennsku og þá hafa ungir og spennandi leikmenn bæst í hópinn. FH-liðið virðist sterkara en á síðasta tímabili og stefnan er klárlega sett á að berjast um titilinn sem liðið hefur ekki unnið síðan 2016.

Síðasta tímabil hjá FH

 • Sæti: 2
 • Stig: 36
 • Vænt stig (xP): 28,4
 • Mörk: 37
 • Mörk á sig: 23
 • Vænt mörk (xG): 28,8
 • Vænt mörk á sig: 23,9
 • Með boltann: 48,8%
 • Heppnaðar sendingar: 78,3%
 • Skot: 11,1
 • Aðalleikaðferð: 4-2-3-1 (43%)
 • Meðalaldur: 28,8
 • Markahæstur: Steven Lennon (17)

Liðið og lykilmenn

Líklegt byrjunarlið FH.Vísir/Toggi

Eggert Gunnþór Jónsson (f. 1988): Kom eins og stormsveipur inn í deildina á síðustu leiktíð. Var akkerið sem vantaði á miðjuna í Hafnafirði og gaf öðrum miðjumönnum það frjálsræði sem þeir þurftu til að njóta sín fram á við og varnarmönnum liðsins það öryggi sem þeir þurftu til að lyfta leik sínum á hærra plan. Ef Eggert Gunnþór á jafn gott tímabil í ár þá eru honum, og FH, allir vegir færir.

Steven Lennon (f. 1988): Eins góður og Eggert Gunnþór var á síðustu leiktíð þá var Lennon betri. Skotinn var eflaust manna pirraðastur þegar mótið var flautað af en allt stefndi að hann myndi bæta hið margrómaða markamet. Verður að því virðist úti vinstra megin í 4-3-3 leikkerfi FH í sumar. Fær þar mikið frjálsræði til að keyra inn á völlinn og gera varnarmönnum deildarinnar lífið leitt. 

Matthías Vilhjálmsson (f. 1987): Eftir áratug í atvinnumennsku mætir Matthías hungraður í að koma FH aftur á toppinn. Hann getur spilað upp alla miðju vallarins. Allt frá miðverði til framherja. Vísir telur þó líklegast að hann muni leiða sóknarlínu FH-liðsins í sumar. Það á hins vegar eftir að koma í ljós hvernig „týpa“ af framherja hann verður. Mun hann draga sig neðar á völlinn til að búa til pláss fyrir vængmenn FH-liðsins eða mun hann vera í öftustu línu að valda miðvörðum deildarinnar vandræðum. Við komumst að því um helgina.

Eggert Gunnþór Jónsson, Steven Lennon og Matthías Vilhjálmsson.vísir/vilhelm/hulda margrét/getty/Trond Tandberg

Leikstíllinn

Í þremur orðum: Hraði, ákefð og gæði.

FH-liðið er einkar vel mannað í ár. Mikil reynsla í bland við unga og hungraða leikmenn. Liðið mun stilla upp í hefðbundið 4-3-3 þar sem spilað verður hratt upp völlinn, bakverðir fara hátt á meðan vængmenn draga sig inn í hálfsvæðin.

Logi tók við FH ásamt Eiði Smára Guðjohnsen á síðustu leiktíð. Nú verður Davíð Þór Viðarsson með honum og því erfitt að setja fingurinn á leikstíl liðsins eins og staðan er í dag. Það verður hins vegar lítið um tilraunastarfsemi og reikna má með hröðum og skilvirkum fótbolta.

Í markinu er Gunnar Nielsen lítið að flækja hlutina. Markspyrnur fara oftar en ekki upp völlinn nema hægt sé að gefa á Guðmund Kristjánsson vinstra megin í vörninni. Færeyingurinn er einnig óhræddur við að grýta boltanum út á bakverði sína er liðið brunar af stað í skyndisókn.

Þó liðið spili ekki blússandi hápressu vill það pressa ofarlega. FH gekk vel í að vinna boltann á miðsvæðinu í fyrra og skapa hættulegar skyndisóknir í kjölfarið. Reikna má því þema áfram. Þá skorar það töluvert eftir fyrirgjafir en FH fyllir vítateig andstæðinga sinna vel og nær því oft öðrum eða þriðja bolta ef fyrirgjöfin sjálf skilar ekki marki.

Þá er FH-liðið sterkt í föstum leikatriðum. Með tilkomu nýrra leikmanna fram á við eykst breiddin enn frekar og ljóst að sóknarleikur FH ætti að vera fjölbreyttur og árangursríkur í sumar.

Markaðurinn

vísir/toggi

Hilmir snýr heim. Matthías Vilhjálmsson mun vafalítið reynast FH mikill liðsstyrkur. Síðast þegar hann lék í Krikanum vann hann fjóra Íslandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla. Hann skoraði sex mörk í norsku úrvalsdeildinni í fyrra og það ætti að vera nóg eftir á tanknum hjá þessum 34 ára, fjölhæfa leikmanni.

FH fékk einnig góðan liðsstyrk í Ágústi Eðvaldi, lykilmanni hjá Víkingi síðustu tvö ár, sem þó fer aftur til Danmerkur 1. júlí.

Vuk er mættur til FH eftir að hafa farið á kostum í Lengjudeildinni í fyrra og þessi ungi, sókndjarfi miðjumaður gæti vel látið til sín taka.

Tveir afar efnilegir leikmenn til viðbótar eru komnir. Annar er Oliver Heiðarsson Helguson sem er tvítugur sóknarmaður sem skoraði fjögur mörk fyrir Þrótt í fyrra. Hinn er Teitur Magnússon, 19 ára miðvörður sem varð danskur meistari með U19-liði OB en er nú kominn aftur í Krikann eftir tvö ár í Danmörku.

Helsti missirinn fyrir FH ef horft er til síðasta tímabils er brotthvarf Daníels af miðjunni. Atli Guðna og Baldur Sigurðs eru sannkallaðar goðsagnir í íslenska boltanum, og hafa ef til vill smitað frá sér sigurhugarfari, en voru ekki í burðarhlutverkum í fyrra.

Hvað vantar FH? Þórður og Logi spiluðu lítið sem ekkert í fyrra en með brotthvarfi þeirra eru FH-ingar enn þunnskipaðri í vörninni. Nýr, sókndjarfur og góður bakvörður myndi hjálpa liðinu mest.

Að lokum

Logi Ólafsson er elsti og reyndasti þjálfari Pepsi Max-deildarinnar.vísir/vilhelm

Leikmannahópur FH er ógnarsterkur en til marks um það eru yfir tíu leikmenn í honum sem hafa spilað sem atvinnumenn erlendis. Reynslan er gríðarlega mikil og svo er FH með Lennon, manninn sem breytir hálffærum í dauðafæri með útsjónarsemi og frábærri spyrnutækni.

Aldurssamsetningin á leikmannahópi FH er nokkuð sérstök en hann samanstendur aðallega að leikmönnum yfir þrítugt og leikmönnum um tvítugt. Í hópnum er svo gott sem enginn á „millialdri“ og flestir lykilmenn hafa þegar toppað á sínum ferli. FH-ingar vona þó að Þórir Jóhann Helgason haldi áfram að taka framförum og Vuk Oskar og Oliver setji mark sitt á liðið. Þá ætti Ágúst Eðvald að hjálpa til meðan hans nýtur við.

Gengið á undirbúningstímabilinu var ekkert frábært en það segir lítið þegar út í alvöruna er komið. FH-ingar eru með mannskap til að berjast um titilinn og ætla sér að vinna hann í fyrsta sinn í fimm ár sem þykir löng bið á þeim bænum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.