Skoðun

Þegar sam­herji verður fram­herji

Magnús Sigurjón Guðmundsson skrifar

Umræðan um málefni líðandi stundar á Íslandi er oft fjörug og skemmtileg. Ég gef mér að bændur og búalið, sjómenn og landkrabbar, prestar og prélátar, fyrirmenni og meira að segja hinn sauðsvarti almúgi hafi frá ómunatíð haft skoðun á öllu milli himins og jarðar. Vettvangur til skoðanaskipta hefur aftur á móti gjörbreyst. Sú var tíðin að þegnar þessa lands ferðuðust á milli bæja til þess eins að heimsækja vini og vandamenn. Ferðalagið var oft á tíðum langt og þegar á leiðarenda var komið tók við innihaldsríkur tími með þeim sem heimsóttir voru. Þar var án efa skrafað og skeggrætt hin og þessi málefni manna og málleysingja og hvergi sparað gífuryrðin. Þeir sem voru skoðanafastir færðu sig yfir í félagsmálin eða jafnvel yfir á vettvang stjórnmálanna. Þá voru nýtt hver þau úrræði sem í boði voru til þess að bera skoðanir sínar á torg. Prentmiðlar fengu að finna fyrir krafti pennans. Sendar voru inn greinar í þá mörgu prentmiðla sem í boði voru en þá skipti öllu máli hvar þú varst staðsettur á hinu pólitíska landslagi. Því stjórnmálaflokkar sáu um útgáfu blaðanna. Þessar greinar getum við svo lesið á alnetinu mörgum áratugum síðar. Þar var hart tekist á og út úr umræðunni var féið dregið í dilka. Þar röðuðu einstaklingar sér í hólf fjárréttarinnar með einstaklingum sem voru þeim sammála og í næsta hólfi voru þeir sem voru þeim ósammála. Samherjar sendu mótherjum hárbeittar ádeilur og háðsglósur og þétt var staðið saman. Samherjar leiddust hönd í hönd og vörðu sitt og sína í ræðu og riti.

Umhverfi fjölmiðla hefur tekið gríðarlegum breytingum frá því að sú var tíðin. Stjórnmálaflokkarnir standa ekki lengur fyrir útgáfu málgagna. Prentmiðlar hafa horfið hver af öðrum en í staðinn hafa sprottið fram á sjónarsviðið bloggsíður, hlaðvörp og svo samfélagsmiðlar þar sem hver er sinn eigin ritstjóri. Einstaklingar ferðast ekki lengur á milli bæja til þess eins að spjalla við vini og vandamenn og smjatta á málum annara. Nú er nóg að taka bara upp símann og ýta vísifingri á skjáinn og samstundis hefst myndbandssamtal við þá sem við viljum ræða við. Nú þarf ekki að senda inn greinar í prentmiðla því nóg er að pikka á lyklaborðið og birta færslu á heimasíðu sinni eða hrópa út í tómið á manns eigin samfélagsmiðlum. Þrátt fyrir þetta er hin rammíslenska þjóðargersemi, smjattið um málefni líðandi stundar og málefni annara, enn við hestaheilsu. Í heitum pottum sundstaða er rætt um eldfim málefni og þar er sko tekist á. Hlustendur útvarpsstöðva keppast við að ná inn í innhringitíma stöðvana til þess eins að láta gamminn geysa. Hvergi er sparað í orðavalinu og gífuryrðin fljúga á öldum ljósvakans. Algóryþminn sér svo til þess að við þurfum ekki að draga okkur sjálf í dilka. Á samfélagsmiðlum birtast okkur í fréttaveitunni taumlausar fréttir sem allar eru í anda þeirra skoðana sem við aðhyllumst. Við höldum kannski að það þýði að allir á samfélagsmiðlum séu okkur sammála en áttum okkur ekki á því að þetta er tæknin að hafa okkur að fíflum. Mögulega voru lesendur prentmiðlana á árum áður með sömu skoðanaskekkju í kollinum. Þeir þurftu ekki algóryþma heldur versluðu bara sinn miðil þar sem skoðanabræður þeirra og systur hikuðu ekki við að níða skóinn af andstæðingum sínum og mæra samherja sína í hástert. Allir voru þeim sammála. Eða hvað?

Frá upphafi byggðar hafa þegnar þessa lands barist við ógnarsterk öfl náttúrunnar. Veðurofsi, eldgos, jarðskjálftar, bankahrun og skæðar farsóttir hafa reynt á samtakamátt okkar. Þá einsetjum við okkur að gera þetta saman. Vera öll í sama liðinu og leiðast hönd í hönd meðan við troðumst í gegnum skaflinn. Það er aðferðafræði sem við getum verið stolt af. Kraftur stoltrar smáþjóðar er dýnamísk orka sem fátt fær stöðvað. Bölmóðssýki sumra er þó ekki langt undan og er þá gripið til skáldagáfunar og reynt að sjá samsæri í hverju horni, falska fána og þaulskipulagða spillingu hins „gamla kolkrabba“, „íhaldsins“ eða jafnvel „hinna afturhaldssömu vinstri manna“. Allskonar pólitískri helgislepju er makað á orðræðuna. Þá reynir á hugmyndafræði sem tíðkast í íþróttum. Andstæðingurinn er sá sem ekki deilir sömu skoðunum og maður sjálfur og samherjar standa ávallt þétt saman. Einstaklingar staðsetja sig á klett skoðana sinna sem kunna að vera pólitískar, trúarlegar eða hugmyndafræðilegar. Þeir sem eru svo með manni í liði hafa alltaf rétt fyrir sér en hinir hafa aldrei rétt fyrir sér. Sú svarthvíta aðferðafræði getur látið mann festast í hjólförunum þegar trúin á samherjum okkar verður okkar eigin sannfæringu sterkari. Þá er heimsmyndin einfaldlega sú að liðin séu bara tvö í kappleik lífsins. Þú og samherjar þínir og svo andstæðingurinn. Þið standið saman og ætlið að vinna leikinn sama hvað tautar og raular. Með öllum ráðum og dáðum. Drengilegum eða með bellibrögðum.

Í íþróttum er það auðveld og auðmelt nálgun. Við vitum hver er með okkur í liði og hann vill sannarlega skora í mark andstæðingsins eins og hinir í liðinu. Hann vill líka verja okkar mark og passa að andstæðingurinn komi ekki á okkur marki. Markmaðurinn stendur á milli stanganna, varnarmenn þétta raðirnar baka til, miðjumenn dreifa spilinu upp og niður völlinn og sóknarmenn þjarma að marki andstæðingsins. Ef að samherji okkar á ekki sinn besta leik þá reynum við að hughreysta hann og stappa í hann stálinu. Ef hann gerir sjálfsmark þá tökum við utan um hann og hjálpum honum að tæma hugann. Það gengur bara betur næst. Engar áhyggjur. Við erum í þessu saman. Eftir kappleikinn takast allir í hendur sama hvernig leikurinn fór og þakka fyrir leikinn áður en þeir skilja í mesta bróðerni. Einfaldleiki íþrótta er svo fallegur. Leikmenn ganga kaupum og sölum og skipta um lið án þess að stuðningsmenn gamla liðs leggi á þá hatur. Eða kannski er það full mikil einföldun. Mögulega eimar enn á beiskju stuðningsmanna ef að Skagamaður færir sig yfir til KR en hatur er sterkt orð. Það þótti einu sinni landráð að svíkja ÍA fyrir KR en núna er öldin önnur. Við höfum skorað hugmyndafræðina á hólm.

Sama er að gerast á litrófi stjórnmálanna. Einstaklingar færa sig á milli stjórnmálaflokka og það þykir varla tiltökumál lengur. Klofningsframboð spretta fram og fjöldi flokka hefur sjaldan verið meiri. Einstaklingar eru í auknu mæli að standa fast á eigin sannfæringu þrátt fyrir að hún sé á skjön við skoðanir flokkssystkina þeirra. Innan Ríkisstjórnarflokkana er tekist á og ekki einu sinni reynt að fela það. Innan flokkana sjálfra er líka tekist á og feluleikurinn er enginn. Stundum leiðir það til þess að einstaklingar segja sig úr sínum flokki en allt í einu þykir sjálfsagt að vera í liði með einstaklingum sem eru ekki sammála okkur í einu og öllu. Við lesum meira að segja á síðum fjölmiðla að þingmenn úr stjórnarliðinu séu að gagnrýna sóttvarnaraðgerðir sem þeirra eigin flokkur var hugmyndasmiður að. Það er af sem áður var. Við erum ekki lengur eins og börn á meðvirku heimili þar sem allt heimilishaldið gengur út á það að ljúga að okkur að allt sé í góðu í hjónabandinu. Nú vitum við að mamma og pabbi eru ekki sammála í einu og öllu. Stundum rífast þau en hjónabandið heldur.

Þegar samherji verður framherji.... andstæðingsins.... þá er okkur bara nokkuð sama. Svarthvíta hugmyndafræðin um að standa alltaf með samherjum sínum er að líða undir lok. Við lifum á tímum þar sem við þurfum ekki að vera sammála samferðamönnum okkar. Við megum finna að verkum liðsfélaga okkar og rýna til gagns. Það er bara gott að vera ósammála ef við erum brynjuð fúsleika þess að „gera þetta saman“ og finna málamiðlanir. Eða hvað?

Guðmundur Magnússon rithöfundur ritaði skemmtilega grein í Eimreiðina fyrir 110 árum síðan. Þar stóð: „Þau hrópa og hrópa mannsaldur eftir mannsaldur, en menn heyra það ekki fyrir þjóðargorgeir og pólitískum belgingi. Þau hrópa, svo að allur heimurinn heyrir það, nema Íslendingar sjálfir.“

Þjóðargorgeir og rörsýni á þær kenningar sem við aðhyllumst í stjórn- og trúmálum eru á undanhaldi. Heimsmyndin sem hefur komið okkur sem þjóð alla leið hingað, trúin á að samtakamátturinn komi okkur í gegnum skaflinn, er með strekkingsvind í seglin. Við erum í þessu saman. Við getum allt ef við bara einsetjum okkur að iðka anda auðmýktar og víðsýni og berum virðingu fyrir skoðunum annara. Þeir sem keppast um að kasta samlöndum sínum fyrir ljónin verða alltaf til. Þeir sækja að okkur úr myrkrinu og tuða yfir fáklæddum stúlkum á Onlyfans, gráðugum sægreifum, aðförinni að einkabílnum í borginni og svo mætti lengi telja. Látum það sem vind um eyrun þjóta. Á sama tíma skulum við skora á hugmyndafræði sem er skaðleg, ýtir undir ójöfnuð og óréttlæti eða stríðir hreinlega gegn lögum. Samherji má verða framherji þeirra sem aðhyllast ekki sömu lífsskoðanir og við svo lengi sem hann fer eftir lögum leiksins. Eða hvað?

Höfundur er tómstunda- og félagsmálafræðingur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×