Handbolti

Fámenni á einu æfingunni fyrir Ísraelsleikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson ræðir við þá leikmenn sem tóku þátt í æfingu íslenska liðsins í dag.
Guðmundur Guðmundsson ræðir við þá leikmenn sem tóku þátt í æfingu íslenska liðsins í dag. hsí

Fámennt var einu æfingu íslenska karlalandsliðsins í handbolta fyrir leikinn gegn Ísrael í undankeppni EM 2022 á morgun.

Aron Pálmarsson, Gunnar Steinn Jónsson, Bjarki Már Elísson, Oddur Gretarsson, Sveinn Jóhannsson, Daníel Þór Ingason, Sigvaldi Guðjónsson, Ágúst Elí Björgvinsson og Viggó Kristjánsson tóku þátt í æfingunni í Tel Aviv í dag.

Myndir frá æfingunni fámennu má sjá hér fyrir neðan.

Strákarnir okkar æfa þessa stundina í Tel Aviv undir stjórn Guðmundar Guðmundsson og hófst þar með undirbúningur þeirra...

Posted by HSÍ - Handknattleikssamband Íslands on Monday, April 26, 2021

Íslenski hópurinn verður ekki allur kominn til Ísraels fyrr en í nótt. Leikurinn er svo klukkan 17:00 á morgun, að íslenskum tíma.

Eftir leikinn á morgun fer íslenska liðið til Litáens þar sem það mætir heimamönnum á fimmtudaginn. Síðasti leikurinn í undankeppninni er svo gegn Ísrael á Ásvöllum á sunnudaginn. Leikirnir eru sumsé þrír á sex dögum og í þremur löndum.

Í samtali við Vísi í dag sagði landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson að undirbúningurinn væri afar óvenjulegur og krefjandi.

„Í fyrsta lagi er bara hluti hópsins kominn, því hinir koma ekki fyrr en í nótt. Þar með náum við ekki einni einustu æfingu allir saman fyrir leikinn á móti Ísrael. Hingað er náttúrulega langt ferðalag sem situr í mönnum. Svo spilum við leikinn á morgun og förum upp í flugvél strax morguninn eftir, í langt flug til Vilnius. Þetta er fáránlegt prógramm og gríðarlega mikið lagt á liðið,“ sagði Guðmundur.

Ísland er í 2. sæti riðils 4 með fjögur stig, tveimur stigum á eftir toppliði Portúgals sem hefur leikið einum leik meira. 

Með sigri í síðustu þremur leikjunum í undankeppninni endar Ísland fyrir ofan Portúgal í efsta sæti riðilsins sem yrði liðinu dýrmætt þegar dregið verður í riðla fyrir EM sem fram fer Slóvakíu og Ungverjalandi í janúar á næsta ári.

Leikur Ísraels og Íslands hefst klukkan 17:00 á morgun og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×