Handbolti

Tandri Már tekinn inn í landsliðshópinn - Stjörnumenn án hans í tveimur leikjum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tandri Már kemur í hópinn í stað tveggja leikmanna sem eru í sóttkví.
Tandri Már kemur í hópinn í stað tveggja leikmanna sem eru í sóttkví. vísir/hulda margrét

Tandri Már Konráðsson, leikmaður Stjörnunnar í Olís-deild karla, var í dag kallaður upp í A-landsliðshóp karla í handbolta. Tveir leikmenn eru í sóttkví og þurftu að segja sig úr hópnum.

Arnór Þór Gunnarsson, í Bergischer í Þýskalandi, og Elvar Ásgeirsson, leikmaður Nancy í Frakklandi, þurftu báðir að segja sig úr landsliðshópnum þar sem þeir eru í sóttkví eftir að COVID-smit komu upp í liðum þeirra.

HSÍ tilkynnti í dag að Tandri Már Konráðsson, leikmaður Stjörnunnar, hafi verið kallaður upp í landsliðshópinn vegna þessa. Ísland mætir Litáen og Ísrael tvívegis dagana 27. apríl til 2. maí.

Tandri Már er lykilmaður í liði Stjörnunnar sem á að mæta FH í stórleik þann 30. apríl og botnliði ÍR þann 3. maí. Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, staðfesti við Vísi að Stjarnan hefði rétt til að sækja um frestun en Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, greindi frá því við handbolti.is að Stjörnumenn myndu spila leikina á tilsettum tíma. 

KA fékk slíka beiðni í gegn þar sem tveir leikmenn þeirra, Nicholas Satchwell og Allan Nordberg, leika með færeyska landsliðinu í landsliðsglugganum.

Fram sótti hins vegar ekki um slíka undanþágu þrátt fyrir að Rögvi Christiansen og Vilhelm Poulsen séu í færeyska hópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×