Skoðun

Hugsjónir, hagsmunir, fólk og lýðræði

Svavar Halldórsson skrifar

Senn líður að kosningum og við kjósendur þurfum að gera upp hug okkar. Eins og kerfið er núna kjósum við flokka en ekki fólk. Gott og vel. En hvað eru stjórnmálaflokkar. Þeir eru misjafnlega umfangsmiklar regnhlífar utan um þrjá megin þætti; hugsjónir, hagsmuni og fólk.

Hugsjónir

Rannsóknir stjórnmálafræðinga sýna að flestir telja sig ágætlega til þess bæra að raða stjórnmálaöflum á kvarða frá vinstri til hægri. Þetta er líklega nokkuð rétt. Samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu er það hlutverk ríkisvaldsins í samfélaginu sem er mest afgerandi áhrifaþátturinn. Miðað við það vilja vinstri menn mikil ríkisafskipti en hægri menn lítil. Fyrir utan þetta eru svo alls kyns aðrar hugsjónir eða skoðanir sem ganga þvert á þennan ás. Alls staðar í Evrópu hefur stuðningur við aðild að Evrópusambandinu verið þvers og kruss út frá hægri eða vinstri. Sama hefur verið upp á teningnum hér. Þjóðernishyggja er svo sérstakur kapítuli.

Hagsmunir

Allir stjórnmálaflokkar mótast að einhverju leyti af hagsmunum. Stundum aðeins lítið en oft á tíðum mikið. Við þekkjum vel flokka um allan heim sem hafa verið sérstaklega stofnaðir til að berjast fyrir ákveðnum hagsmunum, t.d. sem stjórnmálaarmar verkalýðsfélaga eða frelsishreyfinga. Sumir flokkar berjast fyrir sameiningu landssvæða en aðrir fyrir uppskiptingu. Sumir ganga erinda atvinnugreina eða jafnvel einstakra auð- eða valdamanna. En það er auðvitað misjafnt hvernig jafnvægi hugsjóna og hagsmuna er í hverjum flokki. Nánast allar stjórnmálahreyfingar mannkynssögunar eiga það þó sammerkt að huga vandlega að eigin hagsmunum.

Fólk og lýðræði

Stjórnmálamennirnir sjá svo um að standa vörð um hagsmuni eða koma hugsjónunum í verk. Þeir eru auðvitað margir og misjafnir. Hjá sumum þeirra vega hugsjónirnar þungt en hjá öðrum eru það hagsmunirnir. Allt er þetta hluti af lýðræðiskerfinu. En við kjósendur sem þurfum að taka allt þetta með í reikninginn, hugsjónir, hagsmuni og frambjóðendur. Svo veljum við skástu samsetninguna út frá okkar persónulegu mælikvörðum. Þannig virkar lýðræðið. Það er ekki fullkomið en þó það skásta sem við höfum. Gleðilegt sumar.

Höfundur er sérfræðingur í matarmenningu, stefnumótun og markaðsmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×