Um­fjöllun og við­töl: Grótta-KA 33-37 | KA sigraði í marka­veislu í Hertz-höllinni

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
KA fagnaði sigri á Seltjarnarnesi í dag.
KA fagnaði sigri á Seltjarnarnesi í dag. Vísir/Hulda Margrét

KA sigruðu Gróttu í 70 marka, frestuðum leik frá 14. umferð í Olís-deild karla í dag. Lokatölur 33-37.

Bæði lið mættu að krafti í fyrsta leikinn sem er spilaður eftir að deildin var flautuð enn einu sinni á. Grótta leiddu með 1-2 mörkum fyrstu mínúturnar. Þegar um stundarfjórðungur var liðin af leiknum kom Bruno Bernat í mark KA og áttu Grótta erfitt með að finna markið. 

Það er hægt að segja að Bruno hafi læst búrinu það sem eftir lifði fyrri hálfleiks, hann var með 9 bolta varða, 56% markvörslu og staðan í hálfleik 16-18 fyrir KA. 

Í seinni hálfleik héldu KA áfram að keyra og voru með yfir höndina allan seinni hálfleikinn. 

Grótta náði að minnka muninn í 1 mark á köflum en það var olía á eldinn fyrir KA menn sem sigruðu leikinn með 4 mörkum, 33-37 og KA menn halda sáttir í rútuferð yfir heiðina.

Af hverju vann KA?

Þeir mættu öflugir til leiks. Það var ekki að sjá á liðinu að þeir hefði verið að æfa með takmörkunum, mögulega þyrstir í að fá að spila. Sóknarleikurinn var góður, 37 mörk. 

Leikbreytir í fyrri hálfleik var svo þegar að Bruno Bernat, ungur uppalinn KA maður fékk að spreyta sig og hreinlega lokaði rammanum í fyrri hálfleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Gróttu var Birgir Steinn Jónsson atkvæðamestur með 11 mörk. Andri Þór Helgason var með 7 og Daníel Örn Griffin með 6. 

Hjá KA var það Árni Bragi Eyjólfsson með 12 mörk. Áki Egilsnes var með 8 mörk. Bruno Bernat kom öflugur í markið og var með 10 varða bolta, 40% markvörslu. 

Hvað gekk illa?

Varnarleikur Gróttu fann sig ekki í dag. Lítil sem enginn markvarsla og varnarleikurinn slakur. 

Hvað gerist næst?

Í 16. umferð sækjir KA, Hauka heim. Leikurinn fer fram sunnudaginn 25. apríl kl 16:00 og verður í beinni á Stöð 2 sport. 

Grótta eru búnir að spila leikinn sinn í 16. umferð en í þeirri 17. mæta þeir ÍR í Austurbergi. Leikurinn fer fram föstudaginn 30 apríl kl 19:30

Arnar Daði: Ég ætla ekki að segja lýsingarorðið sem mig langar að segja

Arnar Daði var súr og svekktur í kvöld.vísir/hulda margrét

,,Ég er svekktur yfir frammistöðu okkar. Sérstaklega varnarlega.  Ég ætla ekki að segja lýsingarorðið sem mig langar að segja,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu eftir tapið.

,,Það eru komnir of margir leikir í röð sem að við erum ekki að fá varða bolta og við sem lið höfum ekki efni á því. Við erum að djöflast á varnarmönnunum okkar í 60 mínútur endalaust og þeir eru að berjast. Við verðum að fá fleirri varða bolta en þetta. Það var nýliðabragur á okkur í dag.“

Grótta leiddi leikinn í byrjun en áttu erfitt með að koma boltanum í netið þegar að Bruno Bernat kom í mark KA. 

,,Þetta var frábært innkoma hjá Bruno. Geðveikt fyrir hann að koma svona í sinn fyrsta leik og verja og verja. Að sama skapi er þetta kæruleysi og aulaskapur hjá okkur. Hann varði eitthver skot en sumt voru auðveldir boltar sem hann tók.“

Grótta fær smá frí núna þar sem þeir eru búnir að spila leik sinn í 16. umferð Olís-deildar karla en þeir mæta ÍR föstudaginn 30. apríl. 

,,Það verður fáranlega erfiður leikur, andlega og líkamlega. Við þurfum að koma okkur til baka eftir þennan leik og það gerist ekkert sjálfkrafa. Þetta verður krefjandi leikur á móti ÍR, það segir sig sjálft,“ sagði Arnar að lokum. 

Jónatan: Ég er mjög ánægður og margt í okkar leik sem mér fannst mjög gott

Jónatan Magnússon, þjálfari KA ásamt Sverre aðstoðarþjálfara

,,Ég er ánægður með þessi tvö stig sem við vorum á eftir. Við bjuggum okkur undir mjög erfiðan leik. Ég er mjög ánægður og margt í okkar leik sem mér fannst mjög gott,“ sagði Jónatan Magnússon, þjálfari KA eftir sigur á Gróttu í dag. 

Þetta er fyrsti leikurinn sem er spilaður eftir enn eina Covid- pásuna og því búist við smá riðu í leikmönnum en það var ekki að sjá.

,,Hvort það hafi verið spenningurinn hjá báðum liðum að fá að keppa loksins alvöru leik. Það var mjög mikið tempó og við ætluðum að keyra á þá og halda háu tempói, það gekk mjög vel. Varnarleikurinn, ég get ímyndað mér að liðin séu ekki ánægð með hann. Við skorum 37 mörk sem er mjög gott.“

Í fyrri hálfleik kemur Bruno Bernat í mark KA og slær Gróttu útaf laginu. Hann var með 9 mörk varin í fyrri hálfleik, 56% markvörslu. 

,,Hann stóð sig frábærlega. Þetta er fyrsti leikurinn sem hann spilar í efstu deild. Hann vissi að hans tími er núna og þetta er frábær frammistaða. Hann snéri við leiknum í fyrri hálfleik. Það kom stopp eftir hans innkomu.“

KA mætir Haukum í næsta leik. 

,,Það er stutt á milli leikja. Það er ekki mikill tími en það er margt sem við getum tekið með okkur úr þessum leik en líka hlutir sem við getum bætt okkur í,“ sagði Jónatan að lokum.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira