Skoðun

Tökum næsta skref: Lögleiðum ölvunarakstur

Karen Róbertsdóttir skrifar

Þann 6. apríl s.l. deildi Viggó Örn Jónsson með okkur í grein sinni á vefsíðunni Vísi djúpri og yfirgripsmikilli læknisfræðilegu þekkingu frá Háskóla Facebook um hvort andlitsgrímur séu gagnlegar í heimsfaraldri; leiddi hann þar í ljós að það sé ekki lengur áhætta á að greinast með sjúkdóm með alvarleg og langvarandi einkenni hér á landi því að við erum búin að ná að fullbólusetja 17% af aldurshópnum 70-79 ára; og hvatti hann okkur til að muna að frelsi okkar til að fara í sund sé þess virði að setja veikan bróðir einhvers út á landi í smávegis áhættu.

Ég vil þakka honum innilega fyrir pistilinn, því mikilvægt er að muna að það eigi *aldrei* að takmarka réttindi fólks - ekki síst réttindi okkar til að ferðast. Er þá ekki nú kominn tíminn til að taka eitt augljóst skref til viðbótar og endurheimta réttindi okkar til að keyra undir áhrifum?

„En Karen,“ segir fólk, „ölvunarakstur drepur saklaust fólk“. En fólk deyr út af svo mörgum ástæðum. Fyrst var okkur sagt að það mætti keyra hvenær sem er og svo er skyndilega sagt að það væri lífsnauðsynlegt að vera edrú við stýrið. Ef maður vill ekki taka áhættu á að ég keyri á hann þá á hann bara að halda sig heimavið og láta þá sem ekki eru hræddir lifa þeirra eigin lífi í friði!

„En Karen,“ er mér sagt, „síðast þegar þú keyrðir undir áhrifum keyrðirðu beint inn á Landakot og drapst 25 manns, og slasaðir mun fleiri alvarlega! Þú hefur líka keyrt beint inn í hjúkrunarheimili. Þú gerir það oft! Við getum ekki verndað aðra frá fullum bílstjórum, og því fleiri sem eru út að keyra, því oftar gerist það!“ Uss! Þessi áróður um ölvunarakstur minnir mig á umræðuna um hryðjuverk, sem leiddi til innrásarinnar í Írak. Ef þér finnst óréttlátt að senda fólk til Guantanamo Bay þá ætti þér líka að finnast það óréttlátt að banna stórar veislur í heimsfaraldri eða að hindra mig frá því að keyra blindfull og ælandi heim af barnum. Sumir styðja frelsi!

Ég ímynda mér paradís þar sem COVID-19 má dreifa sér óhindrað áður en við náum hjarðónæmi í haust, heldur áfram að stökkbreytast í þúsundum líkama og þar með að gera bóluefnin okkar vita gagnslaus, til þess að það þurfi enginn að þola það óréttlæti og harðræði að þurfa að gista eina einusta nótt í fínu hótelherbergi eftir að koma heim frá sumarferð til Spánar. Auk þess ímynda ég mér í þessari paradís mig rásandi á milli akreina, vodka-pelann í hendi, klaki á rúðinni og að kveikja í tívólíbombum með Kúbanska vindlinum mínum, hendandi þeim út um gluggann (þegar ég hitti) á beygluðu Teslunni minni; allt á þetta líka að vera löglegt, því þinn réttur til öryggis, heilsu og lífs er ekki jafn mikilvægur og minn réttur á að hafa það gaman.

Bann við ölvunarakstri er ekki almenningi til hagsbóta. Það er tæki til að láta fólk hlýða. Gera það augljóst að við eigum öll að lúta höfði fyrir ákvörðunum yfirvalda. Ákvörðun sem er fráleit í dag er orðin eðlileg og sjálfsögð ári seinna þegar við erum öll búin að hlýða henni nógu lengi. Leigubílstjóramafían á ríkisstjórnina, og stór hluti samfélagsins hefur látið þetta yfir sig ganga, gegn betri vitund, allt, allt of lengi!

Hvað nákvæmlega, er markmiðið?

Stundum setti ég frosk í sjóðandi vatn (því af hverju ekki að pynta smádýr?), en þrátt fyrir það sem mér var sagt reynir hann alltaf að hoppa upp úr, því jafnvel froskar vita betur en að bregðast ekki við þegar þeir eru í bráðri hættu. En við þurfum ekki að hlusta á visku frá froski. Hleypum inn COVID-19, og burt með bannið við ölvunarakstri. Við eigum réttindi!

Höfundur er fáviti.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.