Körfubolti

Baylor vann úr­slita­leikinn og kom þar með í veg fyrir full­komið tíma­bil Gonzaga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Baylor fagna að leik loknum.
Leikmenn Baylor fagna að leik loknum. Jamie SchwaberowCAA Photos via Getty Images

Baylor Bears báru sigur úr býtum í Marsfárinu í bandaríska háskólakörfuboltanum er þeir unnu Gonzaga Bulldogs 86-70 í úrslitaleiknum. Gonzaga hafði ekki tapað leik á tímabilinu fyrir leikinn í nótt.

Á meðan Gonzaga þurfti framlengingu til að vinna UCLA í undanúrslitum – og voru sekúndubroti frá því að þurfa aðra framlengingu – þá vann Baylor þægilegan 19 stiga sigur á Houston Cougars, 78-59.

Svo virðist sem undanúrslitaleikurinn hafi setið í Gonzaga í nótt. Baylor voru einfaldlega sterkari aðilinn allan leikinn og unnu eins og áður sagði sannfærandi 16 stiga sigur. Lokatölur 86-70 og Baylor Bears því meistari í bandaríska háskólakörfuboltanum. 

Háskólaboltinn í Bandaríkjunum er gífurlega vinsæll og talið er að í kringum 15 til 20 milljónir hafi horft á úrslitaleikinn.

Jared Butler var stigahæstur hjá Baylor með 22 stig ásamt því að gefa sjö stoðsendingar. Þar á eftir kom MaCio Teague með 19 stig og þá skoraði Davion Mitchell – bróðir Donovan Mitchell – 15 stig ásamt því að taka sex fráköst og gefa fimm stoðsendingar.

Hjá Gonzaga var það hetjan úr undanúrslitaleiknum, Jalen Suggs, sem var stigahæstur með 22 stig. Maðurinn með mottuna – Drew Timme - skoraði 12 stig, tók fimm fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.

Eins og áður sagði var þetta fyrsta tap Gonzaga á leiktíðinni, alls vann liðið 31 leik og tapaði aðeins einum. Baylor voru samt sem áður verðugir meistarar, þeir unnu 28 leiki og töpuðu aðeins tveimur. Liðið vann fimm af sex síðustu leikjum sínum með tíu stigum eða meira. 

Hér að neðan má sjá samantekt úr leiknum í nótt.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.