Skoðun

Opið bréf frá stjórn félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna til heilbrigðisráðherra

Aðalbjörg Björgvinsdóttir, Dögg Hauksdóttir, Sigurlaug Benediktsdóttir, Bríet Einarsdóttir og Eva Jónasdóttir skrifa

Heilbrigðisráðherra barst bréf þann 13.desember 2020 frá stjórn FÍFK þar sem bent var á að mikið vantaði uppá að kerfið sem taka átti við skimun fyrir leghálskrabbameini væri tilbúið. Athygli var vakin á þeirri alvarlegu stöðu sem væri í uppsiglingu og óskað eftir svörum við spurningum sem settar voru fram í sama bréfi. Engin svör hafa borist og nú er ljóst að þau muni varla koma eftir hefðbundnum leiðum.

Í byrjun janúar raungerðist það sem FÍFK hafði óttast, verkferlar voru ekki tilbúnir. Hægt og rólega er búið að vinna í því að laga þá þætti í kerfinu sem verða að vera til staðar en þrátt fyrir að fjórðungur úr ári sé liðinn þá er enn langt í land.

Enn hafa ekki borist svör við þeim sýnum sem tekin voru í byrjun janúar í þessu nýja kerfi. Hins vegar er danska rannsóknarstofan búin að svara þessum sýnum en heilsugæslan liggur með svörin og þarf að koma þeim inn í íslenskt kerfi til að konurnar sem bíða og sýnatökuaðilar geti fengið svarið og brugðist við.

Heilsugæslan gefur upplýsingar um að þegar kerfið verður komið í gagnið eins og það á að virka þá verði sýnin send til Danmerkur einu sinni í viku og svar úr sýninu eigi að berast konunni á 3-4 vikum. Nú er aprílbyrjun að nálgast og enn er ekki fyrirsjáanlegt hvenær þetta verður komið í gagnið. Hve lengi á að bíða þar til verður búið að ákveða og koma í verk því ferli sem hefði átt að vera tilbúið þegar heilsugæslan tók við þessari þjónustu?

Áður voru eðlileg sýni voru geymd í 10 ár og óeðlilegum sýnum var ekki fargað heldur geymd í lífsýnabanka Krabbameinsfélags Íslands sem hafði tilskilin leyfi frá heilbrigðisráðuneyti okkar. Hvaða lífsýnabanki mun geyma sýni íslenskra kvenna ? Hve lengi verða sýni íslenskra kvenna geymd í þeim lífsýnabanka ? Hvaða lög gilda um rétt íslenskra kvenna þar sem mistök verða við greiningu á sýni ? Hvaða lög gilda fyrir sýni íslenskra kvenna sem geymd eru í erlendum lífsýnabanka ?

Var gerð öryggis- og áhættumat framkvæmdinni þegar skimunarferlinu var breytt?

Ef leghálsskimunarsýni íslenskra kvenna væru unnin hérlendis myndu þau vera send beint inn á rannsóknarstofu Landspítalans frá sýnatökuaðilanum. Svarið við HPV fengist á 1-2 dögum og færist þá beint inn í rafræna skrá þar sem sýnatökuaðili sér svarið. Rannsóknarstofan ynni áfram þau sýni sem þyrfti með frumurannsókn og svarið myndi færast inn í sama kerfi þar sem sýnatökuaðilinn sér það um leið og svarið er tilbúið. Sýni konunnar myndi geymast í íslenskum lífsýnabanka sem hefði tilskilin leyfi hér á landi og enginn vafi á hvaða reglur væru í gildi um meðferð sýnisins. Hér væri enginn milliliður, engin flugferð, engin tilfærsla frá erlendum gagnabanka yfir í íslenskan, engin töf á svartíma til konunnar eða sýnatökuaðila. Af hverju vill heilbrigðisráðherra ekki þetta ferli?

Höfundar sitja í stjórn FÍFK.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×