Golf

Rory McIlroy sló boltanum í sundlaug á heimsmótinu í holukeppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þetta var erfiður dagur fyrir norður-írska kylfinginn Rory McIlroy.
Þetta var erfiður dagur fyrir norður-írska kylfinginn Rory McIlroy. AP/David J. Phillip

Rory McIlroy átti afar skrautlegt högg í tapi á móti Ian Poulter í fyrsta umferð Heimsmótsins í holukeppni sem fram fer í Texas þessa dagana.

Aðeins 64 kylfingar fengu að vera með í mótinu og þeim var skipt niður í sextán fjögurra manna riðla þar sem sigurvegarinn tryggir sér sæti í sextán manna úrslitum. Riðlakeppnin fer fram frá miðvikudegi til föstudags.

Ian Poulter vann öruggan 6&5 sigur á Rory McIlroy í fyrstu umferðinni en hann var kominn sex holum yfir þegar aðeins fimm holur voru eftir. Leiknum lauk því á þrettándu holunni.

Norður-Írinn, sem var í fyrsta styrkleikaflokki þegar dregið var í riðla, átti meðal annars eitt skrautlegt högg sem endaði í sundlaug sem var í garði á húsi við völlinn. Þetta var upphafshögg Rory McIlroy og hann missti boltann svakalega til vinstri eins og sjá má hér fyrir neðan.

Höggið kom á fimmtu holu á golfvellinum í Austin en var aðeins eitt af mörgum slökum höggum Rory McIlroy í þessum leik. Hann hitti líka í vatnið á þrettándu holunni og með því gulltryggði Ian Poulter sigurinn sinn.

Þetta var fyrsti hringurinn hjá Rory McIlroy síðan að hann hóf að vinna með þjálfaranum Pete Cowen.

Poulter og McIlroy leika í riðli með þeim Cameron Smith og Lanto Griffin. Þar hafði Smith betur á lokaholu dagsins.

Önnur óvænt úrslit á fyrsta deginum voru þau að Antoine Rozner hafði betur 2&0 á móti Bryson DeChambeau. DeChambeau er í fimmta sæti heimslistans á meðan Rozner er í 64. sæti.

Sergio Garcia vann 4&3 sigur á Lee Westwood, Dustin Johnson vann Adam Long 2&0 og Matt Kuchar vann 3&2 sigur á Justin Thomas svo einhver önnur úrslit séu nefnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×