Körfubolti

Lengsta taphrina Njarðvíkur í sögu úrvalsdeildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það hefur allt gengið á afturfótunum hjá Njarðvíkurliðinu að undanförnu og liðið hefur dregist niður í fallbaráttuna.
Það hefur allt gengið á afturfótunum hjá Njarðvíkurliðinu að undanförnu og liðið hefur dregist niður í fallbaráttuna. Vísir/Vilhelm

Njarðvíkingar töpuðu í gær sjötta leik sínum í röð í Domino´s deild karla í körfubolta og hafa aldrei áður tapað svo mörgum leikjum í einum rykk í sögu úrvalsdeildar karla.

Njarðvíkurliðið tapaði með tveimur stigum á móti Val í Ljónagryfjunni í gærkvöldi en liðið var sex stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 63-57. Valsmenn komust mest átta stigum yfir en það dugði ekki heimamönnum að skora sex síðustu stigin.

Njarðvíkingar fengu þó tækifæri í blálokin en klikkuðu á lokaskoti leiksins sem hefði fært þeim langþráðan sigur.

Njarðvíkingar hafa spilað öll tímabilin síðan að úrvalsdeildin í körfubolta var stofnuð árið 1978 en aldrei áður hefur liðið farið í gegnum sex deildarleiki í röð án þess að fagna sigri.

Njarðvíkurliðið tapaði fimm leikjum í röð bæði í október og nóvember 2010 sem og í október og nóvember 2012 en það voru fram að þessu lengstu taphrinur liðsins á einu tímabili í úrvalsdeildinni.

Njarðvík tapaði reyndar fimm leikjum í röð vorið 2012 en tveir af þeim leikjum voru í úrslitakeppninni.

Njarðvíkurliðið hefur nú beðið í 38 daga eftir sigri í Domino´s deildinni en liðið hefur ekki unnið leik síðan fyrir landsleikjahléið í febrúar. Njarðvík vann þá ÍR með sextán stigum, 96-80.

Sá sigur er aftur á móti sá eini hjá liðinu síðan í lok janúar en Njarðvíkingar hafa tapað níu af síðustu tíu leikjum sínum í deildinni.

Næsti leikur Njarðvíkurliðsins er í Grindavík á föstudagskvöldið.

Lengstu taphrinur Njarðvíkur í úrvalsdeild karla 1978-2021:

  • 6 tapleikir í röð
  • 1. mars 2021 - enn í gangi
  • 5 tapleikir í röð
  • 25. október til 22. nóvember 2010
  • 11. október til 9. nóvember 2012
  • 4 tapleikir í röð

    27. janúar til 18. febrúar 1982
  • 25. febrúar til 10. mars 2016
  • 1. desember 2016 til 5. janúar 2017



Fleiri fréttir

Sjá meira


×