Um­fjöllun og við­töl: Grinda­vík - Þór Þ. 105-101 | Grinda­víkur­sigur í bar­áttu­leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Grindavík vann mikilvægan sigur í kvöld.
Grindavík vann mikilvægan sigur í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Grindavík vann mikilvægan sigur á Þór frá Þorlákshöfn í 14.umferð Domino´s deildar karla í körfuknattleik í kvöld. Grindavík situr í 5.sætinu eftir sigurinn, fjórum stigum á eftir Þór.

Það voru gestirnir sem byrjuðu leikinn af miklum krafti. Þegar nákvæmlega ein mínúta var liðin af leiknum var staðan 8-0 fyrir Þórsara og Marshall Nelson, lykilmaður Grindavíkur, kominn með tvær villur.

Heimamenn voru þó fljótir að jafna sig og náðu forystunni áður en fyrsti leikhluti var á enda. Það var lítið um varnir hjá liðunum og eftir fyrsta leikhlutann var staðan 34-33, en Þórsarar skoruðu 22 stig á fyrstu fimm mínútum leiksins.

Grindvíkingar héldu síðan frumkvæðinu nánast allt til enda. Þeir náðu 6-8 stiga forystu í nokkur skipti en Þórsarar komu alltaf til baka. Það háði Þórsurum að spila án Adomas Drungilas sem var í leikbanni og heimamenn hirtu töluvert af sóknarfráköstum.

Staðan í hálfleik var 59-57 og allt galopið.

Svipað var uppi á teningunum í síðari hálfleik. Grindavík hélt forystunni en Þórsarar voru aldrei langt undan. Bæði lið voru að hitta vel fyrir utan, Grindvíkingurinn Kristófer Breki Gylfason var sjóðheitur fyrir utan þriggja stiga línuna sem og Callum Lawson hjá Þór.

Það var töluverður hiti í mönnum undir lokin og leikurinn oft stopp. Þórsarar fengu klaufalega óíþróttamannslega villu þegar skammt var eftir og Dagur Kár Jónsson setti þá mikilvæg víti niður.

Þórsarar fengu tækifæri til að minnka muninn niður í tvö stig þegar lítið var eftir en boltinn vildi ekki niður og Grindvíkingar voru þar að auki duglegir að hirða fráköst til að halda sínum sóknum gangandi.

Það fór svo að lokum að heimamenn unnu 105-101, nokkuð sanngjarn sigur miðað við gang leiksins.

Af hverju vann Grindavík?

Þeir virtust vera með ágæta stjórn á leiknum lengst af en gekk illa að hrista gestina af sér, sem vissulega gerðu vel í að halda sér inni í leiknum. Grindvíkingar nýttu það ágætlega að Þórsarar voru með fremur lágvaxið lið og skoruðu 18 stig í kvöld eftir að hafa hirt sóknarfráköst.

Grindvíkingar fengu framlag frá mörgum leikmönnum og voru að hitta vel fyrir utan þriggja stiga línuna, betur en gestirnir sem klikkuðu á mikilvægum skotum undir lokin.

Þessir stóðu upp úr

Það lögðu margir í púkkið hjá Grindavík. Fyrst ber kannski að nefna Kristófer Breka Gylfason sem setti fimm þriggja stiga körfur í sjö skotum og var sjóðandi heitur fyrir utan línuna. Dagur Kár var frábær að vanda með 20 stig og 12 stoðsendingar og Marshall Nelson skoraði 22 stig og hitti vel.

Hjá Þór var Callum Lawson góður og var með frábæra nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna. Styrmir Snær Þrastarson átti enn einn stórleikinn, skoraði 22 stig og tók 10 fráköst.

Hvað gekk illa?

Þórsarar hefðu þurft meira framlag frá Larry Thomas í kvöld. Hann setti aðeins niður eitt þriggja stiga skot úr ellefu tilraunum og þetta var einfaldlega ekki kvöldið hans í kvöld.

Varnarlega geta bæði lið betur. Vissulega söknuðu Þórsarar síns stóra manns en Grindvíkingar hafa verið í vandræðum með varnarleikinn sinn að undanförnu og virtust oft frekar týndir þegar Þórsarar náðu að láta boltann ganga.

Hvað gerist næst?

Grindavík mætir botnliði Hauka í næstu umferð í Hafnarfirðinum. Suðurnesjamenn þurfa að tengja saman sigra og fá tækifæri til þess gegn Haukum.

Þórsarar taka á móti Stjörnunni í Iceland Glacial höllinni í Þorlákshöfn. Þeir munu væntanlega leggja allt í sölurnar til að ná sigri og koma þar með í veg fyrir þriðja tapleikinn í röð.

Daníel Guðni: Við héldum haus á lokamínútunum

„Ég er virkilega ánægður með að klára svona leik, við erum ekki að spila gegn einhverjum aukvisum því þetta er liðið í 3.sæti í deildinni,“ sagði Daníel Guðni Guðmundsson þjálfari Grindavíkur eftir sigur á Þór frá Þorlákshöfn í Domino´s deildinni í kvöld.

„Þeir virtust ekki sakna Adomas Drungilas svo mikið, allavega ekki sóknarlega. Þeir gerðu vel, voru að ráðast á okkur með stóru bakverðina sína gegn okkar litlu. Bæði lið voru að skjóta vel og sóknarleikurinn góður en varnarleikurinn var það sem vantaði uppá.“

Þórsarar byrjuðu af miklum krafti og eftir eina mínútu voru Grindvíkingar 8-0 yfir og Marshall Nelson kominn með tvær villur.

„Við lentum í brasi, við ætluðum auðvitað alls ekki að byrja svona. En ég er ánægður með mína menn að spila leikinn í gegn þrátt fyrir smá hörku hér í restina. Ég vil meina að við höfum haldið haus þessar lokamínútur,“ bætti Daníel við en það var hiti í mönnum undir lokin og oftar en einu sinni við það að sjóða upp úr.

Grindvíkingar hafa verið í vandræðum með sinn varnarleik og það breyttist lítið í kvöld.

„Við erum í vandræðum þegar þeir sækja hratt. Menn eru seinir, það eru kannski að koma einhver léleg skot og við lendum svo í vandræðum í hraðaupphlaupsvörninni. Við þurfum að gera betur og teljum okkur vita hvað við þurfum að gera.“

Kazembe Abif, sem nýlega kom til Grindavíkur, hefur ekki endilega heillað marga stuðningsmenn Grindavíkur en skilaði ágætum tölum í kvöld og virðist vera komast aðeins betur inn í hlutina. Hann skoraði 14 stig og tók 12 fráköst í kvöld.

„Við skorum 105 stig og hann er ekki endilega búinn að skila einhverjum tölum sóknarlega í síðustu leikjum en hefur komið með ákveðna hluti inn varnarlega sem ég fíla. Hann talar, er hreyfanlegur og er að berjast. Það er það sem ég vil.“

„Vissulega vil ég fá meira framlag frá honum í ákveðnum aðgerðum, til dæmis á móti stórum bakvörðum Þórs í kvöld. Hann skilaði tvöfaldri tvennu í kvöld og það er eitthvað sem koma skal, er hann ekki bara að komast í leikform?“ sagði Daníel Guðni að lokum.

Lárus: Fannst Grindavík vera með stjórn á leiknum

Lárus Jónsson var ósáttur með varnarleik sinna manna gegn Grindvíkingum.vísir/bára

Lárus Jónsson þjálfari Þórsara var svekktur eftir tapið gegn Grindavík en sagði sitt lið hafa tekist ágætlega á við fjarveru Adomas Drungilas sem var í leikbanni.

„Við söknuðum hans í fráköstunum, Grindavík vann frákastabaráttuna. Mér fannst aðrir stíga ágætlega upp en mér fannst við ekki hitta á okkar besta leik og við hefðum þurft aðeins betri frammistöðu frá fleiri leikmönnum,“ sagði Lárus í samtali við Vísi eftir leik í HS-Orku höllinni í kvöld.

Larry Thomas var í vandræðum með skotin sín, hitti úr 5 af 19 skotum utan af velli, og það er erfitt fyrir Þórsara þegar þeir eru í þokkabót án Drungilas.

„Yfirleitt væri hann að setja þessi skot niður en hann átti ekki góðan dag, því miður fyrir okkur.“

Þósarar byrjuðu af miklum krafti og komust í 8-0 í upphafi. Grindvíkingar sneru hins vegar við blaðinu og höfðu frumkvæðið allan tímann eftir að þeir komust yfir í fyrsta sinn.

„Við komum vel gíraðir á öðrum enda vallarins. Svo fannst mér við ekki sýna nógu mikla ákefð í vörninni og þeir löbbuðu auðveldlega framhjá okkur. Þeir komust í góðan takt og mér fannst Grindavík vera með stjórn á þessum leik eftir að við byrjuðum vel.“

„Ég hefði viljað sjá okkur halda mönnunum betur fyrir framan okkur í maður á mann vörninni. Við vissum að við værum aðeins litlir, fannst við berjast ágætlega í fráköstunum en fannst þeir fara auðveldlega framhjá okkur. Þá vorum við farnir að elta þá svolítið í vörninni og fyrir vikið fengu þeir auðveld þriggja stiga skot.“

Þórsarar voru að tapa sínum öðrum leik í röð en eru í 3.-4.sæti deildarinnar ásamt KR sem er að leika gegn Val í kvöld.

„Það er ekkert stress í okkur. Við spiluðum mjög góðan leik gegn besta liði landsins síðast og vorum að spila á erfiðum útivelli þar sem vantaði einn okkar besta mann. Við erum alveg rólegir.“

Nelson: Við vorum sterkara liðið í dag

Úr leik Grindavíkinga fyrr í vetur.Vísir/Elín Björg

Marshall Nelson hefur komið sterkur inn í lið Grindavíkur í síðustu leikjum og átti enn og aftur góðan leik í kvöld þegar Suðurnesjaliðið lagði Þórsara.

„Þetta var stór sigur. Við börðumst vel, þeir voru að spila vel og sérstaklega miðað við að það vantaði þeirra stóra mann. Mér fannst við þurfum að klára leikina aðeins betur í framhaldinu,“ sagði Nelson í samtali við Vísi en Þórsarar fengu tækifæri til að jafna eða komast yfir á síðustu mínútunum eftir að heimamenn höfðu haft frumkvæðið nær allan tímann.

„Bæði lið náðu áhlaupum en við vorum sterkara liðið í dag. Við þurfum auðvitað að vinna í nokkrum hlutum fyrir næsta leik.“

Nelson segist kunna vel við sig í Grindavík sem hefur verið mikið í fréttum undanfarið vegna jarðhræringa.

„Ég kann vel við mig hér, þetta er einfalt líf. Ég fer á æfingu og eyði tíma með liðinu,“ sagði Nelson og sagðist ánægður með eigin frammistöðu.

„Ég þarf að frákasta aðeins betur en að öðru leyti er ég ánægður.“

Nelson sagðist ekkert vera smeykur við jarðskjálftana sem hafa verið afar tíðir í Grindavík á undanförnu.

„Alls ekki, allavega ekki jafn mikið og margir aðrir virðast vera. Það kemur hristingur í smá stund og svo er þetta í góðu lagi,“ sagði þessi geðþekki Ástrali að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira