Handbolti

„Dagur langbestur í deildinni í síðustu leikjum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Arnarsson hefur komið með beinum hætti að rétt tæpum tíu mörkum að meðaltali í leik.
Dagur Arnarsson hefur komið með beinum hætti að rétt tæpum tíu mörkum að meðaltali í leik. Vísir/Vilhelm

Sportið í dag bauð upp á sérstaka handboltaútgáfu í nýjast þættinum þar sem tveir sérfræðingar úr Seinni bylgjunni mættu til Henrys Birgis Gunnarssonar.

Henry Birgir fékk þá Einar Andra Einarsson og Jóhann Gunnar Einarsson til sín í nýjasta hlaðvarpsþátt Sportsins í dag en þar ræddu þeir Olís deild karla í handbolta sem er rétt rúmlega hálfnuð.

Eyjamaðurinn Dagur Arnarsson hefur verið atkvæðamikill í Eyjaliðinu í vetur en enginn leikmaður hefur búið til fleiri færi fyrir félaga sína en hann. Dagur er með 5,3 stoðsendingar og 4,6 mörk að meðaltali í leik.

Eyjamenn hafa verið óheppnir með meiðsli lykilmanna á þessari leiktíð og þeir eru eins og er bara í níunda sæti deildarinnar og því í raun utan úrslitakeppni eins og staðan er í dag. Það eru samt bara þrjú stig upp í fjórða sætið.

„Þeir eiga þrátt fyrir öll þessu meiðsli þennan demant í Degi Arnarssyni. Hann fór rólega af stað en hefur síðan tekið yfir deildina og leiðir deildina í mörkum og stoðsendingum samanlagt og annað. Hann fékk svolítið lyklana fyrir tímabilið og var ekki alveg tilbúinn í það fyrst en hefur síðan sýnt það að hann er alveg til í það,“ sagði Henry Birgir Gunnarsson.

„Í síðustu fimm, sex, sjö umferðum þá hefur hann verið langbesti leikmaðurinn í deildinni. Ef hann hefði haft aðeins fleiri með sér og ÍBV væri kannski þremur til fjórum sætum hærra þá hefði hann komið sterklega til greina sem besti leikmaður deildarinnar í fyrri hlutanum,“ sagði Einar Andri Einarsson.

„Það verður ótrúlega spennandi að sjá hvernig hann spilar úr framhaldinu. Ef hann heldur þessum standard og Sigtryggur, Ásgeir og Fannar koma inn í þetta af fullum krafti þá verða þeir illviðráðanlegir þegar fer að vora og allt verður vitlaust í höllunum,“ sagði Einar Andri .

Það má hlusta á allan þáttinn hér fyrir ofan.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×