Handbolti

Sjáðu drauma­mark Kristínar sem tryggði HK eins marks sigur á FH

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kristín Guðmundsdóttir reyndist hetja HK í dag.
Kristín Guðmundsdóttir reyndist hetja HK í dag. Vísir/Bára

Fyrsta leik dagsins í Olís deild kvenna er lokið. HK marði þá stigalaust botnlið FH með eins marks mun, lokatölur 23-24 í Kaplakrika í Hafnafirði í dag. Sigurmarkið var stórglæsilegt og kom í síðustu sókn leiksins.

Liðin voru í tveimur neðstu sætum deildarinnar fyrir leik dagsins, FH enn án stiga en HK með sjö stig þar fyrir ofan. Undir lok leiks stefndi einfaldlega í að leiknum myndi ljúka með jafntefli enda staðan þá 23-23 eftir hörkuleik.

HK tók leikhlé og hafði nokkrar sekúndur til að ná skoti. Gamla brýnið Kristín Guðmundsdóttir stökk upp lengst fyrir utan punktalínuna og hamraði boltanum í netið. Kristín var eflaust góða 12-13 metra frá marki er hún stökk upp.

Magnað mark og vægast sagt grátlegur endir fyrir heimastúlkur sem voru hársbreidd frá sínu fyrsta stigi í vetur.

Sigríður Hauksdóttir var markahæst í liði HK með sjö mörk á meðan Kristín skoraði sex. Hjá FH var Emilía Ósk Steinarsdóttir markahæst með átta mörk og Hildur Guðjónsdóttir kom þar á eftir með sjö mörk.

FH er sem fyrr í áttunda og neðsta sæti deildarinnar án stiga en HK hefur nú jafnað Hauka að stigum með níu stykki. Aðeins eru tvö stig í Val sem situr í þriðja sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×