Viðskipti innlent

Nýr 8,3 milljarða vísi­sjóður hyggst fjár­festa í ís­lenskum sprota- og vaxtar­fyrir­tækjum

Eiður Þór Árnason skrifar
F.v. Kjartan Ólafsson, Árni Blöndal, Sigurður Arnljótsson og Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir.
F.v. Kjartan Ólafsson, Árni Blöndal, Sigurður Arnljótsson og Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir. Aðsend

Brunnur Ventures hefur lokið fjármögnun á 8,3 milljarða króna vísisjóði (e. venture capital fund) sem ber nafnið Brunnur vaxtarsjóður II. Sjóðnum er ætlað að fjárfesta í íslenskum sprota- og vaxtarfyrirtækjum og er fjármagnaður af tíu lífeyrissjóðum auk Landsbankans.

Markmið sjóðsins er að fjárfesta að lágmarki í tólf sprotafyrirtækjum en vænta má að um tuttugu félög verði í eignasafninu. Stendur til að fjárfesta fyrir 150 til 350 milljónir króna í hverju félagi, að því er fram kemur í tilkynningu. Landsbréf munu annast rekstur sjóðsins í samstarfi við ábyrgðaraðilann Brunn Ventures. 

Þetta er annar vísisjóður Brunns Ventures en fyrir sex árum ýtti sjóðurinn úr vör fjögurra milljarða króna sjóði sem nú er fullfjárfestur. Hann fjárfesti meðal annars í Oculis, DT Equipment, Grid, Laka Power, Nanitor, IMS og Avo Software.

Mikil gróska í nýsköpun

„Mikil þörf er á nýjum vísisjóði hér á landi en lítið hefur verið fjárfest í nýjum sprotum á árinu 2020. Við sjáum mörg tækifæri í íslenskum sprota- og vaxtarfyrirtækjum. Það á meðal annars rætur að rekja til þess að hér á landi er mikið framboð af spennandi fjárfestingakostum enda mikil gróska í nýsköpun á síðustu árum,“ segir Sigurður Arnljótsson, framkvæmdastjóri Brunns Ventures, í tilkynningu.

Fjárfestingastefna sjóðsins er sögð taka mið af eftirfarandi ráðandi þáttum: að fyrirtækið sem fjárfest er í sé gjaldeyrisskapandi, reksturinn sé vel skalanlegur, fyrirtækið búi yfir viðunandi samkeppnisforskoti í formi þekkingar, viðskiptaleyndarmáls eða einkaleyfis og að frumkvöðullinn og teymið sem standa að baki fyrirtækjum sem fjárfest er í séu taldir framúrskarandi á sínu sviði. Að lokum verði lögð áhersla á að fyrirtækið starfi í einhverjum eftirtalinna geira: hugbúnaður og veflausnir, afþreyingariðnaður, hátækni, líftækni, orkuiðnaður, sjávarútvegstækni eða matvælaframleiðsla.

Bættu nýlega við tveimur fjárfestingastjórum

Brunnur Ventures var stofnað af Árna Blöndal og Sigurði Arnljótssyni. Árni var meðstofnandi og framkvæmdastjóri hjá netauglýsingafyrirtækinu BePaid.com um aldamótin. Hann stýrði vísisjóðnum Uppsprettu í fimm ár og hefur starfað við fjárfestingar vaxtarfyrirtækja síðan. Sigurður tók meðal annars þátt í að stofna leikjafyrirtækið CCP og var forstjóri þess fyrstu árin. Sigurður hefur komið að uppbyggingu fjölda vaxtarfyrirtækja, að því er fram kemur í tilkynningu.

Þar segir að samhliða því að koma á fót Brunni vaxtarsjóði II hafi Kjartan Örn Ólafsson og Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir bæst í hóp fjárfestingastjóra hjá Brunni Ventures. Kjartan er reyndur frumkvöðull og englafjárfestir og starfaði um árabil sem framkvæmdastjóri á viðskiptaþróunarsviði fjölmiðlafyrirtækisins Bertelsmann í New York. Margrét starfaði síðustu sex ár hjá Carbon Recycling International þar sem hún var aðstoðarforstjóri.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×