Handbolti

Ómar og Gísli gerðu tólf mörk í sigri á lands­liðs­þjálfaranum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ómar Ingi fagnar marki fyrr á leiktíðinni en hann lék á als oddi í dag.
Ómar Ingi fagnar marki fyrr á leiktíðinni en hann lék á als oddi í dag. Uwe Anspach/Getty

Magdeburg vann þriggja marka sigur, 27-24, á Melsungen í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag.

Magdeburg var einu marki yfir í hálfleik 13-12 en leikurinn var jafn og spennandi nær allan leikinn.

Ómar Ingi Magnússon skoraði átta mörk, þar af fjögur úr vítum, fyrir Magdeburg og Gísli Þorgeir Kristjánsson bætti við fjórum.

Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað fyrir Melsungen en Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari er einnig þjálfari Melsungen.

Magdeburg er nú í öðru sæti deildarinnar en Melsungen er í ellefta sætinu en eiga þó marga leiki inni.

Ýmir Örn Gíslason og félagar í Rhein Neckar Löwen gerðu 26-26 jafntefli við GWD Minden. Löwen jafnaði metin er tvær mínútur voru eftir og ekki var meira skorað.

Löwen er í þriðja sætinu með 26 stig, fjórum stigum frá Flensburg á toppnum.

Arnór Þór Gunnarsson og félagar í Bergrischer unnu sjö marka sigur á Lemgo, 33-26.

Arnór skoraði fjögur mörk en Bjarki Már Elísson var markahæsti maður vallarins með sjö mörk.

Bergrischer er í sjötta sætinu með 22 stig en Lemgo er í fjórtánda sæti deildarinnar með sextán stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×