Skoðun

Ás­laug Arna skriplar á skötu - eins og Hanna Birna forðum

Einar A. Brynjólfsson skrifar

Eins og einhverja lesendur rekur minni til hrökklaðist Stefán Eiríksson, lögreglustjóri úr embætti vegna óeðlilegra afskipta Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, ráðherra dómsmála, af rannsókn á lekamálinu svokallaða. Svo fóru leikar að Hanna Birna sagði sjálf af sér eftir langdregna slímsetu, löngu rúin trausti almennings - og meira að segja pólitískra samherja.

Ég ætla ekki að fjalla nánar um málavexti þessa máls, en það er sérlega áhugavert að sjá hvernig HBK sá villur síns vegar varðandi samskipti sín við lögreglustjórann (reyndar ekki fyrr en öll sund voru lokuð).

Þetta má finna í áliti hins fjársvelta Umboðsmanns Alþingis, nr. 8122/2014:

Jafnframt lýsti fyrrverandi ráðherra því yfir að það hefðu verið mistök af hans hálfu að eiga samskipti við lögreglustjórann vegna rannsóknarinnar meðan hún stóð yfir. Fyrrverandi ráðherra sæi nú að þessi samskipti hefðu hvorki verið fyllilega samrýmanleg stöðu hans sem yfirstjórnanda lögreglumála né því að lögreglustjórinn var forstöðumaður þess embættis sem vann að rannsókninni. Fyrrverandi ráðherra vissi nú að lögreglustjórinn kom lagalega sem slíkur að stjórn hennar sem forstöðumaður þess embættis sem vann að rannsókninni [...]. Þá tók fyrrverandi ráðherra fram að samskiptin hefðu ekki samrýmst nægilega hinni óskráðu hæfisreglu stjórnsýsluréttarins og ekki verið að öllu leyti réttmæt af hans hálfu gagnvart lögreglustjóranum.

Svo mörg voru þau orð. Snúum okkur nú að stóra Ásmundarsalarmálinu.

Áslaug Arna hringdi í lögreglustjóra, í tvígang, á aðfangadag til að ræða frumrannsókn í sakamáli sem tengdist manninum sem hún á starf sitt undir, formanni flokksins hennar. Þá vakna nokkrar spurningar:

  • Gæti hugsast að þessi afskipti Áslaugar Örnu hafi "ekki samrýmst nægilega hinni óskráðu hæfisreglu stjórnsýsluréttarins og ekki verið að öllu leyti réttmæt af [hennar] hálfu"?
  • Gæti hugsast að Áslaug Arna sjái ekki "nú að þessi samskipti hefðu hvorki verið fyllilega samrýmanleg stöðu [hennar] sem yfirstjórnanda lögreglumála né því að lögreglustjórinn var forstöðumaður þess embættis sem vann að rannsókninni"?
  • Gæti hugsast að Áslaug Arna átti sig ekki á því að það hafi "verið mistök af [hennar] hálfu að eiga samskipti við lögreglustjórann vegna rannsóknarinnar meðan hún stóð yfir"?

Nú liggur fyrir að Dómsmálaráðherra hefur verið gert að mæta á fund Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis til að standa fyrir máli sínu. Fróðlegt verður að sjá hvaða skýringar verða lagðar fyrir nefndina, en vandséð er að þær muni nægja til að lægja þær öldur óánægju sem virðast rísa hærra og hærra meðal almennings.

Og það sem meira er: gera hinir stjórnarflokkarnir sig ánægða hugsanlegar skýringar? Verður kannski kosið strax í vor?

Höfundur er fyrrverandi Alþingismaður Pírata í Norðausturkjördæmi og frambjóðandi í prófkjöri flokksins vegna næstu Alþingiskosninga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×