Í kjölfar yfirlýsingar sem við systkinin sendum frá okkur í gær hef ég orðið þess vör að misskilnings gætir um stöðu læknisins sem bar ábyrgð á meðferð móður okkar. Nokkrir hafa komið að máli við mig og lýst undrun sinni á því að landlæknir láti það viðgangast að læknirinn sé við störf.
Rétt er að fram komi að landlæknir hefur tekið á þessu máli af fullri alvöru. Við óttuðumst að fá ekki áheyrn en reyndin varð sú að embættið fór nákvæmlega ofan í saumana á öllum okkar athugasemdum, leitaði svara við öllum okkar spurningum og gekk reyndar lengra en það. Fenginn var óháður sérfræðingur til að rannsaka málið og skilaði hann mjög umfangsmikilli og vandaðri álitsgerð. Að auki fór sérfræðingur á vegum embættisins rækilega yfir málið, skoðuð voru sjúkragögn og margar athugasemdir komu fram um atriði sem við höfðum ekki vitað af. Ég er starfsfólki embættis landlækni mjög þakklát fyrir vandaða málsmeðferð.
Það vekur vissulega furðu að maðurinn skuli vera við störf á meðan málið er enn í lögreglurannsókn en hann er ekki með lækningaleyfi og starfar því á ábyrgð annarra lækna en ekki ábyrgð landlæknis. Ég stórefast um að landlæknir hafi nokkrar heimildir til að skipta sér af slíku fyrirkomulagi. Landlæknir hefur aftur á móti heimild til að mæla með endurveitingu starfsleyfis en það hefur ekki verið gert.