Skoðun

Að verja botninn

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar

Samtök atvinnulífsins létu frá sér yfirlýsingu í gær, 24. febrúar, til stuðnings starfsmannaleigunni Menn í vinnu og matreiðslufyrirtækinu Eldum rétt. Efling hefur stutt málssókn fjögurra rúmenskra félagsmanna sinna gegn þessum fyrirtækjum vegna slæmrar meðferðar og launasvika, en í gær féll meingallaður dómur í Héraðsdómi þar sem réttur atvinnurekenda til að gera á hlut starfsfólks er varinn og rangt er farið með málavexti í veigamiklum atriðum. Lögmaður Samtaka atvinnulífsins steig einnig fram í júlí 2019 til varnar þessum fyrirtækjum og starfshátta þeirra.

Samtök atvinnulífsins hafa á síðustu misserum ekki aðeins tekið upp hanskann fyrir þessi tilteknu fyrirtæki heldur hafa þau einnig beitt sér kröftuglega gegn hertum viðurlögum við launaþjófnaði og annarri brotastarfsemi á íslenskum vinnmarkaði. Þetta hafa samtökin gert með opinberum greinarskrifum formanns SA gegn baráttu Eflingar fyrir nauðsynlegum umbótum í málinu og með þrýstingi bak við tjöldin gegn lagasetningarvinnu á vegum Félagsmálaráðuneytisins.

Hin ástríðufulla vörn Samtaka atvinnulífsins fyrir brotafyrirtæki á íslenskum vinnumarkaði, jafnvel í tilvikum þar sem fyrirtækin eru ekki innan vébanda SA og almennt talin tilheyra neðri lögum vinnumarkaðarins, seilist langt og telst til tíðinda. Á sama tíma berast fregnir af úrsögnum stórra og íslenskra iðnfyrirtækja úr SA og stofnun nýrra samtaka veitingafyrirtækja sem ekki una sér innan SA.

Efling hefur margítrekað bent á að brotastarfsemi er meinsemd sem skaðar vinnumarkaðinn í heild. Fæstir atvinnurekendur sjá hag sinn í launasvikum og illri meðferð fólks, og undirboð einstakra brotafyrirtækja leiða til skekktrar samkeppnisstöðu. Vangreidd laun lenda á Ábyrgðarsjóði launa sem fjármagnaðar er af öllum atvinnurekendum. Staðreyndir um umfangsmikinn launaþjófnað og illa meðferð á aðfluttu vinnuafli á Íslandi eru álitshnekkir fyrir atvinnulífið í heild.

Svo virðist sem Samtök atvinnulífsins séu nú á félagsmannaveiðum hjá þeim sem setja markið lægst og hafa hingað til hafa staðið utan heildarsamtaka vinnumarkaðarins. Með því að stilla sér upp í sérstakri varnarstöðu fyrir brotafyrirtæki og áframhaldandi refsileysi gegn brotastarfsemi eru Samtök atvinnulífsins að verja botninn.

Höfundur er formaður Eflingar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×