Körfubolti

Pau Gasol gengur í raðir Börsunga og stefnir á Ólympíu­leikana í Tókýó

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gasol lék síðast með Milwaukee Bucks vorið 2019. Hann er nú kominn á heimaslóðir í Katalóníu.
Gasol lék síðast með Milwaukee Bucks vorið 2019. Hann er nú kominn á heimaslóðir í Katalóníu. Quinn Harris/Getty Images

Spænski körfuknattleiksmaðurinn Pau Gasol tilkynnti í dag að hann sé í þann mund að ganga í raðir Barcelona. Hinn fertugi Gasol gerði garðinn frægan með Los Angeles Lakers í NBA-deildinni fyrr á þessari öld.

Gasol lék með Börsungum frá árinu 1998 til ársins 2001. Þaðan lá leiðin til Bandaríkjanna þar sem hann lék með Memphis Grizzlies, Los Angeles Lakers, Chicago Bulls, San Antonio Spurs og Milwaukee Bucks á annars mögnuðum ferli.

Þekktastur er hann fyrir mögnuð ár með Lakers þar sem hann og Kobe Bryant fóru fyrir liðinu sem varð meistari árin 2009 og 2010. Þess má til gamans geta að yngri bróðir hans, Marc Gasol, leikur með Lakers í dag.

Alls lék Gasol eldri sex sinnum í Stjörnuleik NBA-deildarinnar. Var hann einnig valinn nýliði ársins að loknu sínu fyrsta tímabili í deildinni. Gasol hefur einnig verið einkar sigursæll með spænska landsliðinu. Tvívegis hefur liðið farið í úrslit Ólympíuleikanna en tapað og þá nældi liðið í brons árið 2016. Gasol varð heimsmeistari með Spánverjum 2006 ásamt því að hafa unnið EM í körfubolta árin 2009, 2011 og 2015.

Hann hefur ekkert spilað síðan samningur hans við Bucks rann út vorið 2019. Gasol hefur verð að glíma við meiðsli undanfarið en er við það að komast í sitt gamla form. Hann mun vera í treyju númer 16 og gildir samningur hans við Barcelona út þetta tímabil.

Þá heldur Gasol í vonina um að veraí leikmannahópi Spánar sem tekur þátt á Ólympíuleikunum í Tókýó næsta sumar.

Barcelona er í öðru sæti spænsku úrvalsdeildarinnar með 18 sigra og þrjú töp að loknum 21 leik. Íslensku landsliðsmennirnir Martin Hermannsson, Tryggvi Snær Hlinason og Haukur Helgi Pálsson leika allir með liðum í deildinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.