Albumm

Þreyttur á heimsku mannanna

Ritstjórn Albumm skrifar
Víðir Mýrmann Þrastarson listamaður.
Víðir Mýrmann Þrastarson listamaður.

Listamaðurinn Víðir Mýrmann Þrastarson var að gefa út plötuna Kveður norna kalda raust undir listamannsnafninu Sorg. Sagan á bakvið plötuna er stórmerkileg og kom hún til hans eins og þruma úr heiðskíru lofti en allir textarnir á plötunni voru hripaðir niður á þremur dögum.

„Eitthvað var að trufla mig og svo allt í einu kom sagan til mín. Sá þetta fyrir mér sjónrænt og eitthvað tók við. Það eru 10 lög á plötunni en 8 textar frá Sorg, eitt lagið er Sofðu unga ástin mín og hitt er Erla góða Erla, allt skráð eftir lögum og reglum,“ segir Víðir en hann var staddur í stúdíóinu sínu í Hveragerði með kaffibollann sinn að leyfa straumum listagyðjunnar að leika um sig á meðan hann hlustar á gamalt þungarokk, þegar Albumm hafði samband.

Hver er Sorg? 

„Sorg er „alter ego,“ hann er karakter sem ég hef ekki mikil skil á, hann lifir milli heima og er úr fornöld hann er nánast ósnertanlegur, hann er sjálfskipuð rokkstjarna. Fátt haggar honum og erfitt er að ná í hann, hann kemur og fer að vild. Hann notar ekki tölvupóst eða önnur nútíma samskipti. Það er hægt að prófa að senda honum flöskuskeyti eða bréfdúfu, þar sem bréfið þarf að vera innsiglað eftir kúnstarinnar reglum, ef ekki, þá á fólk á hættu á að vera slegið til einvígis,“ útskýrir hann og bætir við að hann skapar í gegnum sig. 

„Ég geri það sem hann segir mér, ég syng meira að segja plötuna og hef aldrei sungið áður,“ viðurkennir hann. „Ég og Gummi Óli vinur minn sem er í hljómsveitinni Kötlu, köllum hann greifann. Hann er harður húsbóndi og hefur skýr skilaboð.“

Víðir spilar á öll hljóðfærin á plötunni, nema trommurnar en hann fékk þurra trommutakkta frá hollenskum pródúser sem heitir Arnaud k. sem mixaði trommurnar sjálfur.

„Sorg sagði mér að gera allt sjálfur, meira að segja raddir, taka allt upp sjálfur og mixa. Reyndar fékk ég leyfi fyrir að nota einn minn besta vin gítarleikarann Ara Harðarson að spila nokkur sóló og einhverja „lead“ vinnu. Ari hefur sterka tengingu við gamla tíma og þegar við komum saman sem gítartvenna, þá verða til galdrar. Hann er orðinn fastur meðlimur í Sorg og hann hefur ekkert um það að segja,“ segir hann og glottir. „Það þarf reyndar að finna sviðsnafn á drenginn, sjáum hvaða nafn Sorg velur.“

Víðir Mýrmann Þrastarson.

Þegar spurður út í tónlistina segir hann að tónlistin er ekki aðalatriðið heldur innihaldið.

„Takmarkið var ekki að búa til flókna plötu þar sem öll hljóðfærin eru að öskra og ekki heyrist í neinum heldur búa til einfalt hljóðverk sem talar eigið tungumál og hefur boðskap,“ útskýrir hann og bætir við að platan er fyrst og fremst skilaboð, hrá og köld, vosbúð, fátækt og kuldi.

Talandi um plötuna en sagan á bakvið plötuna er frekar merkileg og átakanleg. Geturðu sagt okkur frá henni? 

„Sagan byrjar hér á þessari afskektu drungalegu eyju í norðri þar sem byggð er að byggjast og náttúruöflin hafa enn vinninginn fyrir spillingu og auðvaldi. Fátæk móðir ber út nýfætt barn, leggur hana í vök en stúlkan lifir og gefur sér nafnið Ljósbjörg. Hún stundar hvítagaldur en er síðar sökuð að ósekju um svartagaldur, sem var ekki mikið um á Íslandi. Hræddur lýðurinn og yfirvaldið, fógeti og kirkjan elta hana uppi, brjóta hana niður, pína og að lokum brenna hana lifandi. Hún er skilin eftir, en vonin heldur í henni lífinu, en hún deyr af sárum sínum og heldur í sína lokaför til að hitta forfeður sína í norna andaheiminum.“

Víðir segir að allt þetta er byggt á hræðslu og fordómum. „Skilaboðin sem Sorg er að senda út er að hann vill breytingar og er þreyttur á heimsku mannanna. Hann fyrirlítur fordóma í öllu formi og hanns heimspeki er byggð á að allir eru jafnir, óháð kyni, litarhætti, trúarskoðunum, stétt eða stöðu,“ útskýrir hann og segist finna mikið til með Ljósbjörgu. „Hún er alltaf hjá mér einhverra hluta vegna, kannski vaki ég yfir henni eða hún yfir mér jafnvel.“

Snæfell eftir Myrmann.

Listmálarinn tónlistarmaðurinn

Þegar Víðir er ekki að gera tónlist er hann mikið að mála og er þá betur þekktur undir nafninu Myrmann, en verkin hans hafa fengið mikla athygli hér heima og erlendis.

Hvor kom á undan, tónlistarmaðurinn eða listmálarinn? 

„Ég byrjaði í sjónlistum mjög snemma, var sífellt teiknandi og að bralla eitthvað. Skapaði oft ímyndaða heima þar sem ég gat leikið mér einn, helst upp á fjalli eða langt frá öðru mannfólki. Þar bjó ég til í huganum heilu þorpin, þar sem hið góða og vonda börðust fyrir einhverjum sigrum. Ég var oft indjáni man ég að berjast við hvíta manninn,“ rifjar hann upp og brosir.

„Ég byrjaði mjög seint í tónlist, átti reyndar gítar þegar ég var unglingur. Fyrst svartan Morris gítar svo skræpóttan blóma steve vai gítar,“ rifjar hann upp. „Ég lagði mig aldrei fram að læra á hljóðfærið, en langaði það samt, gítarleikarar voru í mínum huga semi guðir þar sem þeir þeyttust um sviðið tilbúnir í bardaga með sigrum og töpum. Hljóðfæraleikarar eiga nefnilega misjafna daga,“ útskýrir hann.

Um 25 ára aldurinn tók hann svo ákvörðun og fór í hljóðfærahúsið og keypti gítar, magnara og effekta. Tóku svo við þrjú ár af stífum æfingum þar sem hann æfði sig að meðaltali fjóra til fimm tíma á dag.

„Ég ætlaði mér bara að ná valdi á þessu en þurfti virkilega að hafa fyrir þessu. Ég lít samt ekki á mig sem hljóðfæraleikara, heldur listamann sem notar 12 tóna til að skapa. Mér leiðist frekar að spila tökulög, geri það stundum en það gefur mér ekki mikið,“ viðurkennir hann.

„Tónlist og málverk og einnig lífið er allt byggt upp á sömu hlutum. Allt byggist á þremur tónum í rauninni. Skuggar, millitónar og hápunktar. Millitónarnir eru þetta hversdagslega, hápunktur eru sigrar, gleði, ást og þannig en skuggarnir binda allt saman. Án skugga flýtur allt og það er engin staðfesta. Rokk og þungarokk eru fyrir mér skuggar. Án skugga væri ekkert ljós og öfugt. Það þarf alltaf að vera von, hún heldur vitsmunaverum gangandi.“

Umslag plötunnar Kveður norna kalda raust eftir Sorg. Myndin er eftir listamanninn Pierre-Alain Durand.

Platan er núna komin út á öllum helstu netveitum. Hver dreifir plötunni og hannaði plötu umslagið? 

„Það er fyrirtækið CD Baby sem dreifir plötunni. Annars er allt í gegnum heimasíðu Sorgar. Vínyllin er í pressun út í Englandi og hann kemur til landsins á næstu vikum. Listaverkið fyrir plötuna er sérhannað af Pierre-Alain Durand, 3mmi design og rammar verkið skemmtilega inn. Öfugi krossinn er ádeila á fordóma en hann lýsir, það er alltaf von.“

Hægt er að fylgjast nánar með Sorg á heimasíðunni sorgband.com og á Facebook. Mýrmann er síðan með síður fyrir listaverkin á Facebook og Instagram.


Þessi grein birtist fyrst á Albumm.is. Albumm var stofnaður árið 2014 og fjallar um íslenska tónlist og menningu frá öllum hliðum. Hægt er að hafa samband í albumm@albumm.is.








×