Handbolti

Draugamark í Garðabæ í sigri KA/Þór

Anton Ingi Leifsson skrifar
Landsliðskonan Rut Jónsdóttir er í liði KA/Þórs.
Landsliðskonan Rut Jónsdóttir er í liði KA/Þórs. VÍSIR/HAG

KA/Þór vann dramatískan sigur á Stjörnunni í gær. Samkvæmt heimasíðu Handknattleikssambandsins endaði leikurinn 27-26 en norðanstúlkur virðast bara hafa skorað 26 mörk í leiknum.

Það er handbolti.is sem greinir frá þessu á vef sínum í morgun. Tólfta mark Stjörnunnar var fyrst um sinn skráð á KA/Þór og staðan því 18-11 á þeim tímapunkti en þegar þau mistök uppgötvuðust var stöðunni breytt í 18-12 í stað 17-12 eins og staðan raunverulega var.

Aldrei voru þessu mistök leiðrétt og í stað þess að leikar stæðu 17-12 í hálfleik var staðan 18-12 fyrir KA/Þór sem höfðu þó einungis skorað sautján mörk í fyrri hálfleiknum.

Í tölfræðiveitunni HB Statz var staðan einnig 18-12 í hálfleik en samkvæmt ábendingu HB Statz var staðan í þeirra gagnagrunni 17-12 í hálfleik. Þó eftir samtöl við dómara og eftirlitsfólk var stöðunni á HB Statz breytt í 18-12.

Engin skýrsla hefur borist eftir leikinn og hana má heldur ekki finna á heimasíðu sambandsins. Því hefði leikurinn átt að enda 26-26 en ekki 27-26 fyrir norðanstúlkur sem nú er í öðru sætinu, jafnt Fram á toppnum, á meðan Stjarnan er í fjórða sætinu fjórum stigum á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×