Körfubolti

Hlynur og Gummi Braga verða jafnir í að minnsta kosti sautján daga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson jafnaði met Guðmundar Bragasonar yfir flest sóknarfráköst í sögu úrvalsdeildar á móti KR i gærkvöldi.
Hlynur Bæringsson jafnaði met Guðmundar Bragasonar yfir flest sóknarfráköst í sögu úrvalsdeildar á móti KR i gærkvöldi. Vísir/Bára

Hlynur Bæringsson tók í gær þau fjögur sóknarfráköst sem hann vantaði upp á til að ná að jafna met Guðmundar Bragasonar yfir flest sóknarfráköst í sögu úrvalsdeildar karla.

Hlynur tók fjögur sóknarfráköst í leik Stjörnunnar og KR í Vesturbænum en þar urðu Hlynur og félagar reyndar að sætta sig við tap.

Hlynur jafnaði metið rúmur sex mínútum fyrir leikslok þegar hann tók sóknafrákast eftir misheppnað þriggja stiga skot Mirza Sarajlija. Hlynur náði ekki að eignast einn metið á þeim mínútum sem voru eftir af leiknum.

Hlynur og Guðmundur hafa nú báðir tekið 1243 sóknarfráköst en Hlynur hafði áður slegið met Guðmundar yfir felst heildarfráköst og flest varnarfráköst. Hlynur á nú öll frákastametin.

Þetta var 333. leikur Hlyns í úrvalsdeild en Guðmundur lék 348 úrvalsdeildarleiki á sínum tíma. Hlynur hefur tekið 3,7 sóknarfráköst að meðaltali í leik á úrvalsdeildarferli sínum.

Hlynur hefur tekið þessi sóknarfráköst fyrir þrjú félög en þau eru Skallgrímur (276 sóknarfráköst), Snæfell (630) og Stjarnan (337).

Leikurinn í DHL-höllinni í gær var hins vegar síðasti leikur Stjörnuliðsins fyrir landsleikjahlé og næsti deildarleikur Stjörnumanna er ekki fyrr en 28. febrúar næstkomandi. Hlynur og Gummi Braga verða því jafnir í að minnsta kosti sautján daga.

Guðmundur Bragason er búinn að eiga metið í meira en tvo áratugi en hann tók það á sínum tíma af John Kevin Rhodes.

Flest sóknafráköst í sögu úrvalsdeildar karla:

(Tölfræðin hefur verið tekin saman frá 1988)

  • 1. Guðmundur Bragason 1243
  • 1. Hlynur Elías Bæringsson 1243
  • 3. Friðrik Erlendur Stefánsson 1055
  • 4. Ómar Örn Sævarsson 1043
  • 5. John Kevin Rhodes 910
  • 6. Rondey Robinson 844
  • 7. Páll Kristinsson 837



Fleiri fréttir

Sjá meira


×