Körfubolti

Hjálmar á heimleið og í viðræðum við Val

Sindri Sverrisson skrifar
Hjálmar Stefánsson yrði góður liðsstyrkur fyrir hvaða lið sem er í Dominos-deildinni. Hann mun hafa ákveðið að snúa ekki til baka til Hauka.
Hjálmar Stefánsson yrði góður liðsstyrkur fyrir hvaða lið sem er í Dominos-deildinni. Hann mun hafa ákveðið að snúa ekki til baka til Hauka. vísir/bára

Valur gæti verið að fá enn frekari liðsstyrk fyrir átökin í Dominos-deild karla í körfubolta að loknu tveggja vikna landsleikjahléi sem tekur við um helgina.

Landsliðsmaðurinn Hjálmar Stefánsson er á heimleið úr atvinnumennsku eftir að hafa leikið með Aquim­isa Car­bajosa í spænsku C-deildinni í vetur. Hjálmar er í íslenska landsliðshópnum sem spilar tvo leiki í Kósóvó nú í febrúar en flytur svo aftur heim til Íslands samkvæmt upplýsingum Vísis.

Hjálmar lék allan sinn feril hér á landi með Haukum en hefur gefið sínu gamla félagi afsvar og mun því ekki snúa aftur á Ásvelli.

Eftir því sem Vísir kemst næst er líklegast að Hjálmar gangi í raðir Vals en hann hefur átt í viðræðum við félagið.

Hjálmar hefur leikið 16 leiki í spænsku C-deildinni í vetur og að meðaltali skorað 6,1 stig, tekið 3 fráköst og gefið 0,75 stoðsendingar.

Á síðustu leiktíð skoraði þessi 25 ára gamli framherji 7,3 stig og tók 5,4 fráköst að meðaltal í leik með Haukum. Tímabilið þar áður skoraði hann 13,5 stig í leik og tók 7,5 fráköst.

Samkvæmt því sem karfan.is greindi frá í gær hafa Valsmenn einnig samið við bandarískan leikmann sem mun spila með liðinu eftir landsleikjahléið. Sá heitir Jordan Roland og er 23 ára, og kemur úr bandaríska háskólaboltanum.

Valsmenn mæta toppliði Keflavíkur annað kvöld í síðasta leik sínum fyrir landsleikjahléið en þeir hafa átt erfitt uppdráttar í Dominos-deildinni og eru með sex stig, tveimur stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×