Viðskipti innlent

Reynir Trausta og Trausti festa kaup á Mannlífi

Eiður Þór Árnason skrifar
Reynir Traustason á nú 75 prósent hlut í Mannlífi. 
Reynir Traustason á nú 75 prósent hlut í Mannlífi.  Vísir/Vilhelm

Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, og Trausti Hafsteinsson fréttastjóri hafa keypt vörumerkið Mannlíf og lénið mannlif.is af Birtingi útgáfufélagi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reyni en auk þeirra tveggja starfa Kristjón Kormákur Guðjónsson og Hjálmar Friðriksson á fréttastofu miðilsins. Reynir segir ánægjulegt að fá tækifæri til að leiða Mannlíf áfram og nú sem eigandi.

„Við höfum verið í mikilli sókn undanfarin misseri. Af lestrarmælingum má ætla að lestur Mannlífs sé í dag talsvert meiri en samanlagður lestur þeirra þriggja netmiðla sem við bárum okkur saman við þegar ég hóf störf sem ritstjóri Mannlífs,“ segir hann í tilkynningu.

Sast í ritstjórastól á síðasta ári

Að sögn Reynis fara kaup hans og Trausta í gegnum einkahlutafélagið Sólartún ehf, sem er að 75% hluta í eigu Reynis og 25% hluta í eigu Trausta.

Birtingur útgáfufélag, er í eigu Goðdala sem er 100% í eigu Sigríðar Dagnýjar Sigurbjörnsdóttur, og gefur út tímaritin Gestgjafann, Hús og híbýli og Vikuna. Að sögn Reynis mun Mannlíf halda áfram samstarfi við miðla Birtings. 

Greint var frá því í júní á síðasta ári að Sigríður hafi keypt allt hlutafé í Birtingi af Fjárfestingarfélaginu Dalurinn ehf sem er skráð á Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóra Alvogen, og náinn samstarfsmann Róberts Wessmanns.

Á sama tíma var tilkynnt að efnt yrði til samstarfssamnings um rekstur vefsvæðis sem yrði í umsjón og eigu Halldórs og myndi greiða fyrir birtingu á ritstjórnarefni framleiddu fyrir miðla Birtings. Halldór er skráður forsvarsmaður Man.is hjá Fjölmiðlanefnd en vefurinn hýsti um tíma efni Mannlífs og annað efni Birtíngs. Man.is vísar nú aftur á mannlif.is.  

Reynir var tók við sem ritstjóri Mannlífs í mars 2020 en og hafði þá einnig yfirumsjón með útgáfu vikublaðs undir sama nafni. Útgáfa fríblaðsins hefur síðan þá verið sett á ís. 

Reynir er einn stofnenda Stundarinnar og á 12,2 prósenta hlut í miðlinum ásamt Halldóru Jónsdóttur, fyrrverandi eiginkonu sinni.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Fjórtán starfsmönnum Birtíngs sagt upp

Fjórtán starfsmönnum útgáfufélagsins Birtíngs hefur verið sagt upp störfum í skipulagsbreytingum og hagræðingu á rekstri útgáfufélagsins í dag.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×