Körfubolti

Vill að Stólarnir láti Nikolas Tomsick fara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikolas Tomsick var flottur með Stjörnunni í fyrra en hefur ekki fundið taktinn með Tindastól á þessu tímabili.
Nikolas Tomsick var flottur með Stjörnunni í fyrra en hefur ekki fundið taktinn með Tindastól á þessu tímabili. Samsett/Bára

Nikolas Tomsick og félagar í liði Tindastóls fengu slæman skell á móti toppliði Keflavíkur í Domino´s deild karla í körfubolta í gærkvöldi. Sérfræðingur Domino´s Körfuboltakvölds vill að Stólarnir sendi eina stjörnu liðsins til sín heima.

Nikolas Tomsick átti ekki góðan leik með Tindastól í 26 stiga tapi í Keflavík í gær en hann klikkaði á tólf af fimmtán skotum sínum í leiknum. Stólarnir töpuðu þeim 33 mínútum sem hann spilaði með 25 stigum.

Tomsick var hetja Tindastólsliðsins í sigri á Þór í Þorlákshöfn á dögunum en hefur aðeins hitt úr 6 af 31 þriggja stiga akoti sínum í síðustu þremur leikjum. Það gerir bara nítján prósent nýtingu hjá þessari miklu skyttu.

Jón Halldór Eðvaldsson var með Kjartan Atla Kjartanssyni í Domino´s Tilþrifunum í gærkvöldi þar sem var farið yfir leikina í deildinni í gær. Jón Halldór hafði sterka skoðun á því hvort að Nikolas Tomsick væri í raun rétti maðurinn fyrir Tindastólsliðið.

Klippa: Dominos Tilþrifin: Jonni um framtíð Tomsick

„Ég held að Stólarnir fari ekki neitt ef þeir ætla að vera með Tomsick. Ég er bara þar,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson, sérfræðingur í Domino´s Körfuboltakvöldi.

„Mér finnst Stólarnir vera með fínasta lið en þeir eru ekki með neitt æðislegt lið að mínu mati. Hann er alls ekki leikmaðurinn sem þeir þurfa á að halda. Þeir eru með svona leikmann þarna sem heitir Pétur Rúnar,“ sagði Jón Halldór.

„Ég myndi fara í það að fá mér öðruvísi leikmann heldur en Tomsick. Ég myndi reyna að fá mér leikmann sem er nálægt tveimur metrum, er ekki leikstjórnandi, heldur meira þristur kannski, en getur komið upp með boltann. Eins og Brenton var eða Damon Johnson var. Svoleiðis týpu,“ sagði Jón Halldór.

„Tomsick ‚dripplar' alltof alltof mikið og það er enginn taktur í þessu Tindastólsliði,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson,

Það fylgir málinu að Kjartan Atli Kjartansson var ekki sammála Jonna í því að það væri best fyrir Tindastólsliðið að reka Nikolas Tomsick. Það má sjá Jonna tala um Nikolas Tomsick í myndbandinu hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×