Skoðun

Fögnum saman fram­förum í krabba­meins­lækningum

Gunnar Bjarni Ragnarsson, Ólöf Kristjana Bjarnadóttir og Vaka Ýr Sævarsdóttir skrifa

Í dag 4. febrúar er Alþjóðlegi Krabbameinsdagurinn (e. World Cancer Day). Honum er ætlað að vekja athygli á og fræða um málefni krabbameinsgreindra. Í ár er áherslan á samtakamáttinn í baráttunni við krabbamein. Íslendingar hafa einmitt verið þeirra gæfu aðnjótandi að hér ríkir sátt um að krabbamein er ekki einkamál þess sem greinist, heldur mál samfélagsins alls. Samtakamáttur þjóðarinnar hefur leitt af sér að hér er þjónusta við krabbameingreinda í fremstu röð í heiminum. Við höfum fylgt þeirri hröðu þróun sem er í krabbameinslækningum og er að skila sífellt bættum árangri. Í sameiningu hefur okkur líka tekist að byggja upp öflugan og vel menntaðan mannauð sem sinnir krabbameinsgreindum. Þetta hefur leitt til þess að meðferðarárangur hérlendis er með því besta sem þekkist í heiminum.

Um 1700 Íslendingar greinast nú árlega með krabbamein og mun þriðjungur okkar fá krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni. Krabbameinstíðni eykst með aldri og hefur hækkandi meðalaldur þjóðarinnar valdið því að sífellt fleiri greinast með krabbamein. Krabbameinsrannsóknir og tækniframfarir hafa leitt af sér ný krabbameinslyf, framþróun í geislameðferð og enn öflugri stuðningsmeðferð. Viðlíka þróun er í öllum greinum sem koma að greiningu og meðferð krabbameina. Sem afleiðing hafa lífsgæði og lífslíkur krabbameinsgreindra aukist talsvert á undanförnum áratugum. Samanlagt mun þetta leiða til þess að Íslendingum, sem lifa með krabbameini, mun fjölga hratt á næstu áratugum. Í árslok 2019 voru þeir tæplega 16 þúsund sem höfðu greinst með krabbamein og munu á næstu áratugum fara að telja í tugum þúsunda. Margir þeirra munu geta haldið áfram að lifa sínu venjubundna lífi jafnvel samfara krabbameinsmeðferð. Í flestum tilvikum valda þó krabbameinsgreining og meðferð töluverðu raski á lífi fólks og því er mikilvægt að við stöndum saman að myndarlegri uppbyggingu endurhæfingar krabbameinsgreindra á Íslandi.

Íslendingar hafa notið framþróunar í krabbameinsmeðferð og endurhæfingu sem hefur birst í bættum lífslíkum og lífsgæðum krabbameinsgreindra. Þetta hefur tekist með samtakamætti þjóðarinnar. Ljóst er að við þurfum áfram að standa saman gagnvart þeim framtíðaráskorunum sem blasa við okkur. Þessari samstöðu ber að fagna og er hún í anda Alþjóðlega krabbameinsdagsins sem við höldum upp á í dag.

Stjórn Félags íslenskra krabbameinslækna

Gunnar Bjarni Ragnarsson (formaður), Vaka Ýr Sævarsdóttir (gjaldkeri), Ólöf Kristjana Bjarnadóttir (ritari).



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×