Handbolti

Handhafi sex af stærstu titlum handboltans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Niklas Landin lytir hér heimsbikarnum í Kaíró í Egyptalandi í gær.
Niklas Landin lytir hér heimsbikarnum í Kaíró í Egyptalandi í gær. EPA-EFE/KHALED ELFIQI

Það er löngu sannað að það er mikilvægt að vera með frábæran markvörð í handbolta. Þetta geta líka liðin hans Niklas Landin vottað.

Niklas Landin varð í gær heimsmeistari með danska landsliðinu á HM í Egyptalandi og hann átti mjög góðan leik í danska markinu í úrslitaleiknum.

Með því að verða heimsmeistari í gær þá er Niklas Landin nú handhafi sex af stærstu titlum handboltans.

Hann er ríkjandi Heims- og Ólympíumeistari með danska landsliðinu. Landin varð Ólympíumeistari undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar í Ríó í ágúst 2016. Ólympíuleikarnir í Tókýó hafa enn ekki farið fram vegna kórónuveirunnar en hafa verið settir á í sumar.

Landin er líka ríkjandi þýskur meistari með Kiel og vann einnig Meistaradeildina með Kiel milli jóla og nýárs.

Landin varð einnig þýskur bikarmeistari og vann EHF deildina með Kiel undir stjórn Alfreðs Gíslasonar vorið 2019 en vegna kórónuveirunnar hefur ekki enn verið krýndur nýr meistari í þessum tveimur keppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×