Keflavík og nýliðar Fjölnis eru jafnir að stigum á toppi deildarinnar. Keflvíkingar hafa þó leikið tveimur leikjum færri en Fjölniskonur og hafa unnið alla leiki sína á tímabilinu. Auk Keflavíkur og Fjölnis unnu Valur og Haukar leiki sína í gær.
Íslandsmeistarar Vals unnu sinn þriðja heimaleik í röð þegar þeir sigruðu Breiðablik, 88-78. Dagbjört Dögg Karlsdóttir skoraði 21 stig fyrir Valskonur og Hildur Björg Kjartansdóttir var með tuttugu stig og tólf fráköst. Helena Sverrisdóttir skoraði sextán stig, tók ellefu fráköst og gaf sjö stoðsendingar.
Jessica Lorea skoraði átján stig fyrir Breiðablik og Iva Georgieva sautján. Blikar hafa tapað tveimur leikjum í röð og eru í sjöunda og næstneðsta sæti deildarinnar.
Keflavík vann öruggan sigur á botnliði KR í DHL-höllinni, 87-104. Daniela Morillo var með þrefalda tvennu hjá gestunum, skoraði 27 stig, tók sextán fráköst og gaf tíu stoðsendingar. Hún stal boltanum auk þess sjö sinnum. Emelía Ósk Gunnarsdóttir skoraði 23 stig og tók átta fráköst.
Annika Holopainen var langatkvæðamest hjá KR með 34 stig, þrettán fráköst og fimm stoðsendingar. KR-ingar eiga enn eftir að vinna leik á tímabilinu.
Sóknarleikurinn var ekki í aðalhlutverki þegar Haukar unnu bikarmeistara Skallagríms í Borgarnesi, 59-65. Þetta var annar sigur Hauka í röð en þriðja tap Borgnesinga í röð. Liðin eru í 4. og 5. sæti deildarinnar.
Alyesha Lovett skoraði 21 stig og tók nítján fráköst í liði Hauka. Keira Robinson skoraði 23 stig fyrir Skallagrím og Nikita Telesford 22.
Þá gerði Fjölnir góða ferð í Hólminn og vann Snæfell, 66-74. Þetta var þriðji sigur Fjölniskvenna í röð.
Ariel Hearn dró vagninn fyrir Fjölni, skoraði þrjátíu stig, tók þrettán fráköst og gaf sex stoðsendingar.
Haiden Palmer og Anna Soffía Lárusdóttir skoruðu fimmtán stig hvor fyrir Snæfell sem er í 6. sæti deildarinnar.
Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá umfjöllun Gaupa um leiki gærkvöldsins í Domino's deild kvenna.